Umtalsverður munur er á því hvernig staða kynjanna á vinnumarkaði hefur þróast annars vegar frá því fyrir hrun og hins vegar frá hátindi atvinnuleysisins. Hagstofan tekur saman tölur um þróun vinnumarkaðar eftir ársfjórðungum og í dag komu út tölur fyrir fyrsta ársfjórðung 2013. Þegar þessi fjórðungur er borinn saman við sömu tímabil árin á undan sést hve fjarri íslenskur vinnumarkaður er frá því að jafna sig að fullu eftir hrunið. Þar sést einnig að þegar horft er á fyrsta fjórðung hvers árs var atvinnuleysið mest árið 2011.

Atvinnulausir á fyrsta fjórðungi 2013 voru 6.100 fleiri en þeir voru á sama tíma 2008 og er skiptingin nokkuð jöfn á milli kynja, þ.e. atvinnulausum karlmönnum hefur fjölgað um 3.300 en atvinnulausum konum hefur fjölgað um 2.900. Þegar fjöldi starfandi er skoðaður kemur hins vegar allt önnur mynd í ljós. Starfandi körlum hefur fækkað um 6.500 á milli þessara ára, en starfandi konum hefur hins vegar aðeins fækkað um 900.

Munurinn er enn meiri þegar fjöldi starfandi í fullu starfi er skoðaður. Karlar í fullu starfi voru 10.100 færri á fyrsta fjórðungi 2013 en þeir voru á sama tíma 2008, á meðan konum í fullu starfi hefur aðeins fækkað um 100. Körlum í hlutastarfi hefur á sama tíma fjölgað um 3.600 og konum í hlutastarfi hefur fjölgað um 1.100.

Heildarfjöldi unninna klukkustunda í meðalviku á fyrsta fjórðungi 2008 var 7,1 milljónir, en var komin í 6,4 milljónir á sama tíma í ár. Fækkunin nemur 9,7%. Hjá körlum er fækkunin mun meiri, eða 13,8% og 3,3% hjá konum.

Atvinnulausum konum hefur ekkert fækkað frá 2011

Þegar þróunin er skoðuð frá hápunktinum 2011 til fyrsta fjórðungs 2013 sést einnig töluverður munur á kynjunum. Fólki í vinnu fjölgaði um 5.700 og atvinnulausum fækkaði um 3.400. Þar af fjölgaði starfandi körlum um 5.100 og starfandi konum um 600. Körlum í fullu starfi fjölgaði um 3.200 og körlum í hlutastarfi fjölgaði um 1.900. Konum í fullu starfi fjölgaði hins vegar um 2.000 og konum í hlutastarfi fækkaði um 1.400. Á meðan atvinnulausum körlum fækkaði um 3.400 en engin breyting er á fjölda atvinnulausra kvenna.

Breyting á fjölda unninna vinnustunda frá fyrsta fjórðungi 2011 til fyrsta fjórðungs í ár er afar lítil, eða um 0,1%. Þar af hefur fjöldi unninna vinnustunda karla aukist um 2,6%, en hjá konum hefur þeim fækkað um 2,9%.