Að sögn Davíðs Oddsonar Seðlabankastjóra og Arnórs Sighvatssonar aðalhagfræðings Seðlabankans ríkir nú mikill óvissa í efnahagslífinu enda eru hér á landi við lýði afar sérstakar aðstæður í efnahagslífinu um þessar mundir.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 75 punkta í dag sem var í takt við spár greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir hækkun á bilinu 50 til 75 punkta. Stýrivextir eru nú 13% og leita þarf víða um heim til að finna svo hátt vaxtastig.

Á blaðamannafundi í Seðlabankanum í morgun sagði Davíð Oddsson að 75 punkta hækkun nú væri aðallega tilkomin vegna versnandi verðbólguþrýstings vegna væntanlegra launahækkanna og mikillar veikingar krónunnar. Krónan hefur veikst um 12% síðan í mars þegar síðasta spá bankans kom út, sem er mun meiri og sneggri lækkun en búist var við.

Davíð sagði að þrátt fyrir að Seðlabankinn tæki aðgerðum stjórnvalda um aukið aðhald í ríkisfjármálum fagnandi þá væri enn mikill þörf á hörðu aðhaldi af hendi Seðlabankans. Í þessu sambandi mun jafnvel koma til hækkunnar fyrir næsta formlega vaxtaákvörðunardag sem er boðaður 14. september. Seðlabankinn mun endurskoða horfurnar um miðjan ágúst og tilkynna um ákvörðun sína þar að lútandi í kjölfarið.

Á fundinum kynnti Arnór Sighvatsson nýja þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verðbólga verði 11% í lok árs sem er mun meiri verðbólga en greiningaraðilar hafa spáð fyrir um. Spá um stýrivextaferla gerir ráð fyrir að vextir bankans geti orðið allt að 18% á næsta ári.

Arnór tók þó skýrt fram líkt og Davíð að mikill óvissa væri framundan í efnahagslífinu og að ekki bæri að líta á þessar spár sem bindandi loforð um aðgerðir bankans á næstu misserum.