Hagnaður Þormóðs ramma ? Sæbergs hf. fyrstu sex mánuði ársins 2004 var 34 milljónir króna, en var á sama tímabili í fyrra 372 milljónir króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, nam 393 milljónum króna, samanborið við 439 milljónir á sama tímabili í fyrra, sem er 17% af rekstrartekjum, á móti 18% á sama tíma árið 2003.

Rekstrartekjur á árshelmingnum námu 2.290 milljónum króna samanborið við 2.412 milljónir á fyrra árshelmingi síðasta árs. Rekstrargjöld voru 1.897, samanborið við 1.973 milljónir á fyrra ári. Slæm aflabrögð í humri, grálúðu og úthafskarfa, ásamt hækkandi olíuverði hafa leitt til lakari framlegðar af rekstrinum en áætlanir gerðu ráð fyrir. Áætlanir út rekstrarárið gera ekki ráð fyrir því að þessi munur vinnist upp nema að litlu leiti.

Reiknað er með að útgerð skipa og landvinnsla félagsins verði með hefðbundnu sniði út árið. Endanleg rekstrarniðurstaða ársins mun ráðast mjög af þróun olíuverðs, aflabrögðum og afurðaverði.