Hagnaður stærsta vinnuvélaframleiðanda heims, Caterpillar Inc., dróst saman um 32% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og var langt undir væntingum. Hefur þetta neytt félagið til að segja upp 20.000 starfsmönnum.

Jim Owens forstjóri Caterpillar segir í samtali við AP fréttastofuna að árið 2009 muni verða erfitt. „Það er vel mögulegt að tap verði á fyrsta ársfjórðungi.” - Það myndi verða í fyrsta sinn sem tap yrði í ársfjórðungslegu uppgjöri félagsins síðan 1992. Heildartekjur Caterpillar voru 3,56 milljarðar dollara, eða 5,66 dollarar á hlut.

Ástæða samdráttarins er minni eftirspurn á heimsvísu og erfiðleikar við fjármögnun. Þá hækkaði hráefni eins og stál verulega í verði á milli ára þó verðið hafi þó lækkað nokkuð að nýju á síðari hluta ársins 2008.

Sala á vinnuvélum frá Caterpillar dróst saman um 13% í Evrópu, Afríku og í Mið-Austurlöndum. Þá dróst salan saman um 9% í Norður-Ameríku. Aftur á móti jókst salan um 41% í Suður-Ameríku og um 38% í Asíu, en yfir 60% allrar sölu Caterpillar er utan Norður-Ameríku.

Vöxtur Caterpillar hefur verið mikill á undanförnum árum. Var starfsmönnum t.d. fjölgað frá desember 2007 til desember 2008 um 11.554. Nú starfa um 113.000 manns hjá þessum iðnaðarrisa um allan heim.

Af þeim 20.000 starfsmönnum sem sagt hefur upp 5.000 skrifstofumenn (white-collar workers) sem láta munu af störfum í mars.

Markaðsrýnirinn Matt Collins hjá Edward Jones greiningarfyrirtækinu segir síðasta ársfjórðung 2008 hafa verið ljótan hjá Caterpillar, hvernig sem á málið sé litið.

„Góðu fréttirnar eru þær að árið 2008 er liðið, en slæmu fréttirnar eru að árið 2009 mun verða enn verra.”