Samanlagður hagnaður tryggingafélaganna Sjóvár, VÍS og TM nam 970 milljónum króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 2.606 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn hefur því dregist saman um 63% milli ára.

Stefán Broddi Guðjónsson, hjá greiningardeild Arion banka, segir að í stuttu máli megi segja að uppgjör tryggingafélaganna hafi borið með sér að iðgjaldatekjur hafi aukist lítið sem ekkert á meðan tjónakostnaður hafi vaxið nokkuð skarpt. Afkoma af fjárfestingum hafi hins vegar verið glettilega góð miðað við að eignamarkaðir hafi verið þungir framan af ári.

Aukinn tjónakostnaður

„Það er í samræmi við fyrri reynslu að tjónakostnaður tryggingafélaga eykst þegar efnahagslífið er að rétta úr kútnum,“ segir Stefán Broddi. „Batnandi efnahagsástand kemur samt ekki fram í tekjum félaganna það sem af er þessu ári. Það er því eðlilegt að hafa áhyggjur ef félögin geta ekki mætt auknum kostnaði með hækkun iðgjalda. Tjónakostnaður er samt mjög sveiflukenndur og erfitt að draga víðtæka ályktun eingöngu af afkomu fárra mánaða. Þá hefur innflutningur og fjárfesting farið vaxandi og ýmis verkefni virðast á teikniborðinu sem þarf að tryggja þegar þau rísa upp úr jörðinni og fyllast af tækjabúnaði.“

Stefán Broddi segir rekstrarkostnað tryggingafélögunum hugleikinn um þessar mundir og heldur að þau séu öll að leita leiða til þess að auka sjálfvirkni í sölu og tjónamati. „VÍS vinnur nú að innleiðingu á danskri tryggingalausn, TM tilkynnti um aðhaldsaðgerðir í sínu uppgjöri og Sjóvá hyggst halda kostnaði á seinni hluta ársins lægri en hann var á þeim fyrri.“

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .