Nýskráningum bifreiða hefur fækkað mikið að undanförnu, en þær voru 598 talsins í ágúst samkvæmt tölum frá Umferðarstofu og hafa ekki verið jafn fáar síðan árið 2002. Greiningardeild Landsbankans segir þessar tölur gefa vísbendingu um hvert einkaneysla stefnir.

Í júlí síðastliðnum voru nýskráningar 805. Séu tölurnar fyrir júlí og ágúst á þessu ári árstíðaleiðréttar er samdrátturinn milli mánaða 3,6%. Nýskráningar bifreiða hafa dregist saman um 70% frá því í ágústmánuði síðasta árs.

Nýskráningar það sem af er þessu ári eru alls 11.100 talsins en voru á sama tímabili í fyrra um 15.700. Samdrátturinn er því 30% á milli ára.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans. Þar segir jafnframt: „Mikil veiking krónunnar spilar stórt hlutverk í þessum tölum, en mikil fylgni er milli gengisþróunar og fjölda nýskráninga bifreiða eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Nýskráningar bifreiða eru stór þáttur í einkaneyslu og gefa vísbendingu um hvert hún stefnir, þótt sveiflurnar í nýskráningum bíla séu stærri. Við eigum von á því að sala á nýjum bílum verði áfram lítil á næstu mánuðum og að samdráttur mælist í einkaneyslu á yfirstandandi ársfjórðungi.“