Velta í raftækjaverslun dróst saman um 52,9% á föstu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 28,9% á breytilegu verðlagi. Á síðasta ári minnkaði  velta raftækjaverslana töluvert að raunvirði. Veltan í janúar síðastliðnum var þannig 45,2% minni en í janúar í fyrra að því er kemur fram hjá Rannsóknarsetri verslunar.

Dagvöruverslun dróst saman um 13,8% á föstu verðlagi í febrúrar miðað við sama mánuð árið áður. Þetta er óvenjumikill samdráttur í veltu dagvöruverslunar á milli ára og hefur aðeins einu sinni áður mælst svo mikill samdráttur, en það var í desember síðastliðnum. Velta dagvöruverslunar jókst á breytilegu verðlagi um 13,5% í febrúar miðað við febrúar í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 31,7% á einu ári samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.

Sala á áfengi minnkaði um 16,4% í febrúar miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 10% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 31.6% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta fataverslunar var 23,7% minni í febrúar á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og um 2,4% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Á milli mánaðanna janúar og febrúar minnkaði velta fataverslunar um 40,6% á föstu verðlagi og 36,7% á breytilegu verðlagi, sem skýrist að einhverju leyti af lokum janúarútsalna. Velta í fataverslun hefur ekki verið minni að raunvirði frá því að Rannsóknasetur verslunarinnar hóf að mæla hana í janúar 2007.

Þetta átti einnig við um skóverslun. Þannig minnkaði velta skóverslunar í febrúar um 19,4% á föstu verðlagi og um 0,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Velta skóverslunar í febrúar dróst saman um 35,2% á föstu verðlagi frá janúar á undan, sem jafnan er útsölumánuður í skóverslun. Verð á skóm hækkaði um 4,9% í febrúar frá mánuðinum á undan og á fötum um 6,6%.

Næstmestur samdráttur, af þeim flokkum verslunar sem smásöluvísitalan nær til, var í húsgagnaverslun í febrúar. Veltan dróst saman um 40,8% á föstu verðlagi á síðustu 12 mánuðum og um 22,6% á breytilegu verðlagi. Velta húsgagnaverslunar hefur ekki verið lægri frá því að Rannsóknasetrið hóf að mæla veltuna í ágúst 2007. Verð á húsgögnum hækkaði um 30,8% frá því í febrúar 2008.