Framleiðendur örgjörva í heiminum eiga að meðaltali einungis birgðir til afhendinga fimm daga fram í tímann. Birgðastaðan hefur versnað mikið á undanförnum árum en að meðaltali voru framleiðendur með 40 daga birgðastöðu fyrir tveimur árum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt bandaríska viðskiptaráðuneytisins sem kynnt var í gær.

Staðan er til marks um djúpstæð áhrif heimsfaraldursins á aðfangakeðjur í heimsbúskapnum. Skortur á örgjörvum er meðal þess sem hefur meðal annars leitt til mikilla verðhækkana að undanförnu beggja vegna Atlantsála. Gina Raimondi, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að bandarísk fyrirtæki stæðu berskjölduð gagnvart skorti á örgjörvum. Fyrirsjáanlegt væri að fjölmörg fyrirtæki þyrftu að loka verksmiðjum og segja upp starfsfólki ef ekki verður breyting á. Nú þegar hafa fyrirtæki á borð við bandaríska bílaframleiðendur dregið úr framleiðslu vegna örgjörvaskorts.

Allt frá því að heimsfaraldurinn skall á hefur aukin eftirspurn eftir raftækjum og öðrum neysluvörum sem reiða sig á örgjörva magnað upp skortinn.  Fram kemur í umfjöllun Financial Times um málið að viðskiptaþvinganir hafi gert að verkum að bandarísk fyrirtæki geta ekki keypt örgjörva og hálfleiðara af kínverskum framleiðendum. Það hefur aukið frekar á vandann. Eins og staðan er nú reiða bandarísk fyrirtæki sig að stærstum hluta á taívönsk fyrirtæki þegar kemur að framleiðslu örgjörva.

Úttekt bandarískra viðskiptaráðuneytisins er liður í viðleitni stjórnvalda í Washington til að efla innlenda framleiðsla á örgjörvum. Bandaríska öldungadeildin hefur nú þegar samþykkt frumvarp sem heimilar 52 milljarða dala niðurgreiðslu á innlendri örgjörvaframleiðslu. Fulltrúadeildin hefur enn ekki samþykkt frumvarpið.