Hagstofan birti í morgun nýjustu mælingar á launavísitölurnnar og samkvæmt þeim hafa laun hækkað um 11% á síðustu  tólf mánuðum. Að mati greiningar Glitnis er þetta mesta hækkun yfir tólf mánaða tímabil síðan í upphafi árs 1998.

"Endurspeglar þessi hækkun afar mikla spennu á vinnumarkaði en atvinnuleysið mælist um þessar mundir 1%, skortur er á vinnuafli í allmörgum greinum og launaskrið er nokkuð. Kostnaðarverðshækkanir eru af þessum völdum allnokkrar og má rekja hluta af þeirri háu verðbólgu sem nú er til þessara miklu launahækkana en verðbólgan stendur í 7,3%. Launahækkanir hafa því verið umfram verðbólgu þegar litið er til síðustu tólf mánaða og hefur kaupmáttur launa því hækkað um 3,7% ," segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu.

Hækkandi kaupmáttur er síst þess valdandi að slá á þennslu og ljóst að þessar tölur verða teknar til skoðunar í Seðlabankanum áður en ákvörðun verður tekinn um stýrivexti þann 21.desember næstkomandi. Ef Seðlabankanum berast fleiri vísbendingar um að þennsla sé að aukast fremur en að dragast saman á næstu vikum aukast líkurnar á því að bankinn ákveður að hækka vexti sína í desember.