Mikill meirihluti Norðurlandabúa vill að norrænu ríkin taki höndum saman í umhverfis- og loftslagsmálum og vinni í sameiningu að því að gerður verði nýr alþjóðasamningur um losun gróðurhúsalofttegunda. Áhugi Íslendinga á samstarfi á þessu sviði er þó minni en annarra Norðurlandabúa, og Íslendingar eru ásamt Finnum neikvæðastir þjóðanna gagnvart því að greiða hærra verð fyrir rafmagn og bensín í því skyni að draga úr losun.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnum sem Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin hafa látið gera. Samtals tóku 2.500 manns þátt í könnunni sem gerð var í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi og á Íslandi. Umhverfis- og loftslagsmál eru meginviðfangsefni Norðurlandaráðsþings sem haldið verður í Osló 30. október til 1. nóvember.

Ef marka má niðurstöður könnunarinnar er meirihluti Norðurlandabúa, eða 53%, fylgjandi því að verð á rafmagni og bensíni hækki ef það getur orðið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef aðeins er litið Íslands er stuðningur við hærra verð 45%, og í Finnlandi aðeins 32%. Í Danmörku voru 72% þeirra sem svöruðu sáttir við að hækkanir á rafmagns- og bensínskostnaði í þessum tilgangi.

Könnunin bendir til þess að Norðurlandabúar séu almennt bjartsýnir á að hægt verði að draga úr loftslagsbreytingum þannig að áhrif þeirra verði ekki eins alvarleg og útlit er fyrir. Af þeim sem tóku þátt í könnunni sögðust 82% hafa mikla eða nokkra trú á að það væri hægt. Íslendingar (87%) og Svíar (88%) eru bjartsýnastir allra ef marka má könnunina.

Þátttakendur í könnunni voru einnig beðnir um að nefna þau svið sem mikilvægast væri að Norðurlönd störfuðu saman að. Í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi nefndu langflestir, eða meira en 90% aðspurðra, umhverfismálin.

Hjá Íslendingum voru umhverfismálin einnig ofarlega á blaði, en ennþá fleiri nefndu þó menntun, viðurkenningu á prófgráðum og möguleika á rannsóknum í öðrum ríkjum Norðurlanda. Íslendingar nefndu jafnframt oftar en aðrar þjóðir samstarf um utanríkis- og öryggismál, menningarmál og að standa sameiginlega vörð um norrænu tungumálin í hnattvæddum heimi.