Sveigjanleiki í getu hins opinbera að bregðast við áföllum í efnahagslífinu er mikill á Íslandi í samanburði við aðrar þjóðir. Þetta kemur fram í skýrslu sem alþjóðamatsfyrirtækið Standard & Poors hefur gert en í henni kemur fram mat á sveigjanleika fjármálastefnu 21 lands í Evrópu. Einungis tvö lönd búa við meiri sveigjanleika í útgjalda- og tekjustefnu stjórnvalda en Ísland en það eru Írland og Sviss.

Í skýrslunni er birt vísitala sem mælir sveigjanleika í fjármálstefnu stjórnvalda en hún er samsett úr tveimur vísitölum. Sú fyrri mælir sveigjanleika í útgjaldastefnunni en sú seinni sveigjanleikann í tekjustefnunni. Sveigjanleiki í tekjustefnu felst í getu hins opinbera að breyta tekjum með breytingu á sköttum.

Sveigjanleikinn í útgjaldastefnunni á Íslandi er talinn meiri en í tekjustefnunni en sama er uppi á teningnum hjá Írlandi. Þessu er hins vegar öfugt farið í Sviss en skattar þar eru tiltölulega lágir. Lönd sem koma á eftir Íslandi eru Portúgal, Lúxemborg og Bretland.

Í Hálffimmfréttum KB banka kemur fram að hin Norðurlöndin eru fremur aftarlega á merinni. Þannig eru Danir í næstsíðasta sæti, Svíar í 17. sæti og Noregur og Finnland í 13. og 14. sæti. Helsta ástæðan fyrir þessu eru háir skattar í þessum löndum sem gerir þeim erfitt fyrir með að hækka skatta til að auka tekjur.

Mikilvægt er fyrir þjóðir að geta þanið útgjaldahlið ríkisfjármála út og dregið hann saman að vild auk þess að geta breytt skattstigi sínu þegar ríkishallarekstur steðjar að til að koma böndum á ójafnvægið. Mikil hætta getur skapast hjá þeim löndum sem eru með ósveigjanlega fjármálastefnu þegar þau standa frammi fyrir halla og sjá ekki fyrir endann á honum.