Óvissa er um hvort fyrirhuguð uppbygging við Vesturbugt komi til framkvæmda, eins og fjallað er um í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Framkvæmdin við Vesturbugt var líka til umræðu á fundi borgarráðs Reykjavíkur þann 13. mars sl. en í þetta skipti í tengslum við fyrirspurn Sjálfstæðismanna um innviðagjöld. Beðið var um upplýsingar um þau innviðagjöld sem lögð hafa verið á lóðarhafa í Reykjavík. Í bókun Sjálfstæðismanna segir að upplýsingar um innviðagjöld séu greinilega af skornu skammti.

„Athygli vekur að ekki liggur fyrir hver innviðagjöld eigi að vera á verkefnum sem eiga að vera komin að framkvæmdastigi. Má hér nefna Heklureit sem kynntur var fyrir kosningar en virðist vera í frosti vegna gjalda borgarinnar, Héðinsreit sem hefur verið í vinnslu í langan tíma og Vesturbugt sem ætti að vera komin á framkvæmdastig,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins í borgarráði.

Deilur um innviðagjöld vegna uppbyggingar á Heklureitnum hafa verið uppi frá því síðasta sumri og vegna þeirra er alls óvíst hvort af framkvæmdum verður. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, skrifuðu undir viljayfirlýsingu um samstillta uppbyggingu og flutning höfuðstöðva Heklu um vorið skömmu fyrir kosningar.

Átakshópur stjórnvalda um húsnæðismál, sem kynnti tillögur sínar í janúar, lagði m.a. áherslu á að leitað yrði leiða til þess að lækka byggingarkostnað og stytta byggingartíma, meðal annars með stóraukinni samvinnu stjórnvalda og annarra sem koma að skipulags-, byggingar- og húsnæðismálum.

Friðbert segir upplifun Heklu af samskiptum við borgina í þessu máli vera einmitt hið gagnstæða: „Auknar álögur sem eru til þess fallnar að hækka byggingarkostnað eftir að gerð er viljayfirlýsing um verkefnið. Miklar tafir í stjórnsýslunni lengja byggingartíma og samstarfvilji hefur verið afar takmarkaður og byggt á einhliða kröfum stjórnvaldsins,“ segir Friðbert.

Annar viðmælandi Viðskiptablaðsins sagði að samningsgerð við borgina um fasteignaverkefni væri orðin ákaflega flókin eftir að borgin tók upp á að innheimta innviðagjöld og krefjast greiðslu fyrir aukinn byggingarétt. Þá hafi markmið borgarinnar um blandaða búsetu aukið enn á flækjustig samninganna. „Samningurinn um Vesturbugt er dæmi um þetta. Þar er gjaldtaka og lóðakaup fólgin í afhendingu íbúða til borgarinnar að framkvæmdum loknum en ég hef ekki enn áttað mig alveg á hvernig þetta á að fara fram. Ég held að flóknir samningar eins og þessir séu til þess fallnir að fæla fjármálastofnanir frá verkefnum,“ segir viðmælandinn sem ekki vill láta nafn síns getið.

Að samanlögðu er ljóst að uppbygging á allt að 600 íbúðum sem áttu að vera komin til framkvæmda í dag munu frestast um óákveðinn tíma. Friðbert Friðbertsson hefur bent á hve miklar tekjur borgin verði af þegar verkefni dragast á langinn. Honum þykir það skjóta skökku við að framkvæmdir tefjist vegna deilna um gjaldheimtu þegar tekjumissir borgarinnar vegna tafanna sé meiri en nemur gjaldheimtunni sem deilt sé um.

Miðað við útsvarstekjur og fasteignagjöld í samræmi við íbúafjölda í fyrirhuguðum byggingum áætlar Friðbert að árlegar tekjur borgarinnar verði um 531 milljón meiri en við óbreytt ástand á Heklureitnum. Nú þegar Vesturbugt hefur bæst við Heklureitinn í hópi verkefna sem óvíst er að verði að veruleika má reikna með að Reykjavíkurborg verði af um 800 milljónum á hverju ári sem framkvæmdir frestast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .