Árið 2011 námu heildartekjur íslenskra fjölskyldna 585,3 milljörð- um króna, eða um 90 milljörðum minna en árið 2008. Tekjur hinna tekjuhæstu námu 139,5 milljörðum króna, sem er 47,9% lækkun frá árinu 2008. Skýrir þetta að langstærstum hluta þann aukna jöfnuð sem orðið hefur á tekjum Íslendinga frá hruni. Vissulega hafa tekjur hinna tekjulægstu aukist eitthvað, eða um 7,7% á þessu tímabili, en sú breyting hverfur þó í skuggann af þessari miklu tekjulækkun hinna launahæstu.

Stærsta breytingin hjá tekjuhæstu 10 prósentunum milli 2008 og 2011 er algert hrun í fjármagnstekjum. Árið 2008 námu fjármagnstekjur þeirra 163.5 milljörðum króna en árið 2011 námu þær 25,1 milljarði. Launatekjur hinna tekjuhæstu hafa aukist eitthvað á tímabilinu, eða úr 104,1 milljarði í 114,2 milljarða. Áhugavert er að fjármagnstekjur hinna tekjulægstu hafa aukist töluvert á tímabilinu, úr 181 milljón í 592 milljónir. Hlutfallsleg aukning er því um 227% milli ára.

En aftur að hinum tekjuhæstu. Tekjur þeirra af heildartekjum þjóðarinnar námu árið 2011 23,8% en voru 39,4% árið 2008. Skattgreiðslur þessa hóps sem hlutfall af heildarskattgreiðslum allra er hins vegar um 29,9%. Hópurinn stendur því enn undir einum þriðja af heildarskattgreiðslum íslenskra fjölskyldna þrátt fyrir að tekjur hans hafi nær helmingast og skattgreiðslur almennt hafi aukist milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.