Sverrir Sigursveinsson framkvæmdastjóri og einn eigenda ráðgjafafyrirtækisins Kontakt telur umtalsverða uppsafnaða þörf fyrir erlendar fjárfestingar hjá íslenskum fjárfestum.

„Það hefur voðalega lítil þróun átt sér stað í þessu síðustu 10 árin eða meira og það er orðið rosalega mikið af peningum í umferð sem vilja komast út.“

Í kjölfar mikillar veikingar krónunnar í hruninu og samhliða örum vexti ferðaþjónustunnar fór íslenskt atvinnulíf að skila nokkuð myndarlegum og viðvarandi viðskiptaafgangi; afgangur var af utanríkisviðskiptum á hverju ári síðastliðinn áratug.

Á sama tíma hafa eignir lífeyrissjóðanna vaxið gríðarlega, úr um 2.500 milljörðum á lágpunktinum upp úr hruni í hátt í 7.000 milljarða í dag. Þrátt fyrir nokkuð myndarlegan hagvöxt verður því sífellt erfiðara að finna ört vaxandi fjárfestingarþörfinni farveg innanlands.

Af þessum og fleiri ástæðum er þrýstingur á erlendar fjárfestingar Íslendinga orðinn nokkuð mikill.

„Vandamálið er til staðar og það þarf einhvernveginn að leysa það, og það mun örugglega gerast hægt og rólega á einn eða annan hátt á næstu árum. Lífeyrissjóðirnir sjálfir eru kannski ekki líklegir til að fara að fjárfesta beint í litlum og meðalstórum óskráðum félögum, en þeir gætu farið að gera það í gegn um framtakssjóðina, sem er eitt af þeirra verkfærum.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.