*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 18. febrúar 2018 16:05

Mikill tími og orka í skýrslugerð

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, gagnrýnir þann skort á eftirfylgni sem hefur verið í kjölfar útgáfu skýrslunnar árið 2015.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

 Þar sem við sátum á fjórðu hæð í höfuðstöðvum Icelandair horfði ég yfir öxlina á Björgólfi og yfir flugvöllinn í Vatnsmýri. Icelandair tók þátt í starfi Rögnunefndarinnar svokölluðu, sem benti á Hvassahraun sem mögulega framtíðarmiðstöð innanlandsflugs – og mögulega millilandaflugs. Björgólfur gagnrýnir þann skort á eftirfylgni sem hefur verið í kjölfar útgáfu skýrslunnar árið 2015.

„Ég veit ekki hvort það er séríslenskt að eyða orku í gerð svona skýrslu ef hún á að vera hillustáss. Mér finnst það algjör sóun á tíma fólks og fjármunum. Þannig að við ákváðum að taka málið áfram,“ segir Björgólfur.

„Okkur er fyrst og síðast áfram um að það verði starfræktur öflugur tengiflugvöllur á Íslandi sem sé hannaður til að styðja við starfsemi flugfélaga sem byggja viðskiptalíkan sitt á tengingu um Ísland. Við þurfum líka að horfa til þess að tengingar landsbyggðarinnar með flugi þurfi líka að vera í lagi. Þess vegna héldum við áfram með þetta. Niðurstaðan er sú að Hvassahraun getur verið ákjósanlegur staður fyrir innanlandsflug og gæti líka þjónað millilandaflugi. Þegar þessi niðurstaða varð ljós litum við svo á að þetta væri orðið verkefni stjórnvalda. Okkar hluta í þessu er lokið að svo stöddu að minnsta kosti. Síðan gerðist lítið í langan tíma og við erum alltaf að tapa tíma því ákvörðun er ekki tekin. Nú er hins vegar hreyfing í gangi í kjölfar vinnuhópsins sem Jón Gunnarsson skipaði og Sigurður Ingi hefur sagt að hann vilji fá niðurstöðu í málið,“ segir Björgólfur.

Uppbygging í Hvassahrauni hefur þó verið mætt með einhverjum efasemdum, þar sem meðal annars hefur verið bent á að meðan sá flugvöllur væri í uppbyggingu yrði ekki fjárfest í Keflavíkurflugvelli.

 

„Ég vona að það trufli ekki uppbyggingu í Keflavík, því það þarf að vera uppbygging þar, hver sem ákvörðunin verður. Þetta er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að taka ákvörðun um. Ef stjórnvöld vilja fara í Hvassahraun þá hefur það áhrif á Keflavík. Við erum alltaf að tapa tíma í svona ákvörðunum og gallinn er sá að okkur er ekki tamt að taka ákvarðanir sem eru til mjög langs tíma. Það að byggja upp flugvöll er 70 til 100 ára ákvörðun. Þetta er verulega stór ákvörðun sem menn eiga að taka alvarlega og ég vona að menn séu komnir á það stig núna að taka hana. Það getur vel verið að menn komist á þá niðurstöðu að vera áfram í Keflavík og að innanlandsflugið verði þar. Það verður ekki heppilegt hvað innanlandsflugið varðar, það væri heppilegt að það væri nær höfuðborginni,“ segir Björgólfur.

„Okkar áhugi snýr eingöngu að því að það verði tekin ákvörðun um að byggja upp alvöru alþjóðlegan flugvöll sem getur þjónað starfsemi eins og okkar og þeim vaxtarmöguleikum sem felast til að mynda í VIA starfsemi okkar,“ segir Björgólfur. „Það jákvæða í þessu er að samgönguráðherra er að taka málið fyrir og ætlar að reyna að ljúka þessu með ákvörðun.“

Tengingar hlið við hlið gefa aukin tækifæri

Aukin samþætting innanlands- og millilandaflugs á einum flugvelli gæti gert innanlandsflug að betri kosti fyrir ferðamenn, en Air Iceland Connect er eitt félaga Icelandair Group. „Það gefur tækifæri að vera með starfsemina á sama vellinum. Ef tengingarnar væru hlið við hlið gæfi það aukin tækifæri. Róbert Guðfinnsson á Siglufirði hefur mikið kallað eftir þessu. Hann segir að ef það væri sameiginlegur völlur væri tækifæri fyrir ýmsar gerðir flugvéla að þjóna jafnvel smærri stöðum eins og til dæmis Siglufirði. Akureyri hefur meira horft á beint millilandaflug norður á Akureyri, sem hefur verið í vetur. Eitt er ljóst að við þurfum að bjóða upp á meiri dreifingarmöguleika ferðamanna um landið allt,“ segir Björgólfur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is