Mikill uppgangur hefur verið hjá hugbúnaðarfyrirtækinu TM Software að undanförnu. 23 nýir starfsmenn hafa verið ráðnir á síðustu sex mánuðum og þar af 17 í framtíðarstarf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Anna Sigríður Hafliðadóttir, sérfræðingur í markaðsmálum hjá TM Software, segir í samtali við Viðskiptablaðið að starfsmönnum hafi fjölgað á öllum sviðum fyrirtækisins og megi rekja það til snaraukinna verkefna og sölu. Mest hefur söluaukningin verið í tengslum við TEMPO, sem er tímaskráningar- og verkefnastjórnunarhugbúnaður, og því hefur starfsmönnum fjölgað mest á því sviði.

TM Software þurfti nýverið að stækka aðstöðu sína um 50% til að bregðast við þessari miklu fjölgun starfsmanna. Anna Sigríður segir þó ekkert lát á ráðningum. "Ég býst við því að fleiri starfsmenn verði ráðnir inn á næstu mánuðum og nú þegar er búið að ganga frá ráðningarsamningi við nokkra starfsmenn sem byrja á næstunni. Þetta er allt á uppleið."