Mikill uppgangur hefur verið á sölu TM Software á Tempo hugbúnaði. Vísir greinir frá að áætlanir geri ráð fyrir að á þessu ári verði hugbúnaðurinn seldur fyrir um 700 milljónir króna, sem er 75 prósentum yfir sölu síðasta árs og nærri þreföld sala ársins 2012.

Einnig kom fram í tengslum við hálfsársuppgjör Nýherja, móðurfélags TM Software, að orðið hefði 86 prósenta vöxtur í erlendum tekjum á milli ára hjá TM Software. Fyrirtækið er nú með yfir 5000 viðskiptavini í yfir 100 löndum. En starfsmenn eru 40 til 45 hjá TM Software.

Tempo-hugbúnaður TM Software er verkfæri fyrir hugbúnaðarfyrirtæki til verkefnastjórnunar eftir agile-hugmyndafræði sem hefur orðið vinsæl síðustu árin. Hugbúnaðurinn er viðbót við ástralska hugbúnaðinn frá fyrirtækinu Atlassian sem meðal annars Facebook, Twitter, Netflix og LinkedIn notast við.