Ný stólalyfta í Hlíðarfjalli sem upphaflega átti að vera tilbúin í desember 2018 er enn ekki komin í gagnið, rúmum tveimur árum síðar. Eftir áralangan vandræðagang reynir Akureyrarbær nú að ná samningum við Vini Hlíðarfjalls um afhendingu lyftunnar að gefinni tímabundinni undanþágu Veðurstofu Íslands hvað varðar verklag um snjóflóðahættumat og að hluta greiðslna verði haldið eftir þar til verktakinn, Stólalyfta ehf., hefur lokið öllum verkþáttum.

Forsaga málsins er sú að Akureyrarbær og samtökin Vinir Hlíðarfjalls gerðu með sér samning um kaup og uppsetningu nýrrar stólalyftu árið 2017. Vinir Hlíðafjalls áttu samkvæmt samningi að útvega öll leyfi fyrir uppsetningu, sjá um kaupin og annast allar framkvæmdir við uppsetningu. Akureyrarbær átti að útvega vinnuframlag starfsmanna Hlíðarfjalls við uppsetningu eftir þörfum og átti bærinn svo að taka við rekstri lyftunnar eftir uppsetningu og leigja hana til 15 ára, eða þar til verkefnið væri greitt að fullu.

Uppsetning fram úr kostnaðaráætlun

Áætlaður kostnaður verkefnisins var upphaflega 363 milljónir króna, sem Vinir Hlíðarfjalls hugðust fjármagna með 100 milljóna króna hlutafé auk lánsfjár. Samherji ákvað aftur á móti að gefa Vinum Hlíðarfjalls lyftu, bolta og vír og flytja til landsins, sem lækkaði kostnað Vina Hlíðarfjalls samkvæmt áætlun um ríflega 90 milljónir króna.

Kostnaður við uppsetningu lyftunnar fór hins vegar langt fram úr áætlun og haustið 2019 var ljóst að kostnaður vegna uppsetningar myndi falla á Akureyrabæ vegna þessa. Í desember sama ár samþykkti bærinn að gera nýjan samning við Vini Hlíðarfjalls sem gerði ráð fyrir að bærinn keypti lyftuna við verklok á 323 milljónir króna, í stað þess að leigja hana til 15 ára.

Var breytingin gerð í ljósi þess að Vinir Hlíðarfjalls áttu að óbreyttu erfitt með að klára verkefnið vegna verulega aukins kostnaðar við uppsetningu lyftunnar. Gert var ráð fyrir auknum framlögum samtakanna og bæjarins og átti hlutur bæjarins að vera allt að 60 milljónum hærri en uppbyggingarsamningur gerði ráð fyrir.

Í síðasta skipti...

Í september síðastliðnum sagði Stefán Gunnarsson, svæðisstjóri Hlíðarfjalls, óhætt að lofa því, í síðasta skipti, að lyftan yrði klár fyrir vertíðina, í samtali við RÚV . Í nóvember kom hins vegar í ljós að svo yrði ekki. Afhendingartími gæti ekki orðið fyrr en að lokinni öryggisúttekt sem erlendir sérfræðingar þyrftu að framkvæma en að vegna veirufaraldursins yrði sú úttekt sennilega ekki fyrr en í ársbyrjun 2021.

Á fundi bæjarráðs í gær, miðvikudag, var enn rætt um mögulega afhendingu Vina Hlíðarfjalls á nýju lyftunni. Stjórn Hlíðarfjalls lagði þá til að tekið verði við lyftunni með fyrirvara um að tímabundin heimild fáist frá Veðurstofu Íslands gagnvart núverandi verklagi við snjóflóðahættumat. Fyrir lá að rekstrarkostnaður við lyftuna yrði meiri en gert var ráð fyrir, meðal annars vegna snjóflóðavarna.

Þá lagði stjórn til að hluta greiðslu vegna kaupa á lyftunni yrði haldið eftir þar til öllum verkþáttum af hálfu Stólalyftu ehf. verður lokið og eins ef eitthvað kemur upp á við rekstur lyftunnar sem rekja megi til ófullnægjandi búnaðar eða frágangs.

Bæjarráð ákvað að gengið yrði til samninga við Vini Hlíðarfjalls um afhendingu lyftunnar í samræmi við tillögu stjórnar Hlíðarfjalls en fróðlegt verður að fylgjast með því hvort nýja lyftan komist í gagnið fyrir lok skíðavertíðar.