Mikill vaxtarkippur var í gengisbundnum lánum í desember síðastliðnum en vöxturinn nam 12% miðað við fyrri mánuð, segir greiningardeild Kaupþings banka. Á sama tíma jukust verðtryggð lán um 0,9% milli mánaða.

"Raunar virðist sem sem ásóknin í erlend lán hafa hafist eftir gengisfall krónunar síðasta vor. Það sést til að mynda af því að í ársbyrjun 2006 voru 4% af lánum heimilanna gengistryggð en um síðustu áramót hafði hlutfallið hækkað í 10%. Þessi aukna ásókn í erlendar myntir skýrist af miklum vaxtamun við útlönd sem virðist ekki ætla að minnka í bráð. Fjölmiðlar hafa einnig verið duglegir að benda á kosti erlendra lána umfram hin íslensku verðtryggðu lán," segir greiningardeildin.

Hún segir vert að veita því athygli að meðan stýrivextir Seðlabankans standa í methæðum þá aukast innlend útlán bankastofnanna milli mánaða sé miðað við tölur í desember.

"Langstærsti hluti þessa vaxtar er í gengisbundnum útlánum en á sama tíma dragast skammtímalán, s.s. yfirdráttarlán, áfram saman milli mánaða. Samtímis er fasteignamarkaðurinn í nokkurri ládeyðu. Þetta gæti bent til þess að einstaklingar og fyrirtæki séu að endurfjármagna skammtímalán sín að einhverju leyti í erlendri mynt og því e.t.v. ekki hægt að gera ráð fyrir jafn miklum samdrætti í einkaneyslu og sumar hagvaxtarspár ganga útfrá," segir greiningardeildin.

Vinsælasta erlenda myntin til lántöku er japanska jenið. "Gengisáhætta lántakenda er því í mörgum tilvikum mestu bundin við gengi japanska jensins og styrkist jenið hækkar skuldin sé á hana horft í innlendri mynt. Jenið er í veikari kantinum um þessar mundir og sem dæmi má nefna að það hefur ekki verið veikara gagnvart bandaríkjadollar í fjögur ár. Samtímis er íslenska krónan ekki ýkja fjarri sínu jafnvægisgildi og því má reikna með að nýútgefin erlend lán í jenum eigi eftir að hækka nokkuð sé horft til langs tíma," segir hún.