Mikill viðsnúningur varð á afkomu Nýherja á seinasta ári, borið saman við árið 2013. Þannig hagnaðist félagið um 259 milljónir í fyrra en tapaði 1.608 milljónum árið 2013.

EBITDA félagsins var í árslok 2014 827 milljónir en var 302 milljónir árið áður. Eignir félagsins lækkuðu úr 6.031 milljón í 5.771 milljón en það gerðu skuldirnar líka, úr 5.366 í 4.808 milljónir. Eigið fé Nýherja stóð um áramótin í 963 milljónum, borið saman við 665 milljónir í árslok 2013.

„Á undanförnum árum hefur rekstur Nýherja markast af miklum sveiflum sem torvelda samanburð milli ára. Engu að síður er ljóst að síðasta rekstrarár er eitt það besta í ríflega 20 ára sögu félagsins og mjög jákvæður viðsnúningur frá árinu 2013. Góð niðurstaða ársins 2014 er ánægjuleg staðfesting þess að nýjar áherslur í rekstri Nýherja eru til þess fallnar að skapa verðmæti fyrir eigendur, viðskiptavini og samfélagið allt," segir Finnur Oddson, forstjóri Nýherja í tilkynningu.

Mikil vinna framundan

Í ársreikningnum kemur fram að stærstur hluti af tapi Nýherja árið 2013 hafi verið vegna dönsku félaganna Applicon A/S og Applicon Solutions A/S. Árið 2013 tapaði Nýherji 1.303 milljónum vegna félagsins og 26 milljónum árið 2014, en félögin voru seld fyrir 38 milljónir í fyrra.

Í tilkynningu segir Finnur að mikil vinna sé framundan hjá félaginu og að eiginfjárstaða sé of lág. Þar horfum við til áframhaldandi hagræðingar í rekstri og breytinga á félagaskipan Nýherja. Aðskilnaður rekstrar TEMPO frá TM Software ehf. er mikilvægt skref í þessari vegferð. Við náum að skerpa áherslur í sérhæfðri hugbúnaðarþróun á vegum TM Software. Um leið verður TEMPO vörumerkið sýnilegra og fleiri tækifæri verða til samstarfs við utanaðkomandi aðila um að styðja við hraðan vöxt, m.a. með tengslamyndun og fjármögnun á vöruþróun og markaðsstarfi,“ segir Finnur Oddsson.

Tíu stærstu hluthafar í Nýherja eru:

Vænting hf........................................................................................... 16,6%
Lífeyrissjóður verslunarmanna............................................................. 9,2%
VPS ehf.................................................................................................. 8,8%
Stafir lífeyrissjóður......................................................................................................  8,6%
Fiskveiðahlutafélagið Venus hf..........................................................................  6,5%
Vátryggingafélag Íslands hf...........................................................................  6,5%
Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf..........................................................................  5,8%
Landsbankinn hf..................................................................................................  5,2%
P 126 ehf................................................................................................................... 3,3%
Benedikt Jóhannesson..............................................................................  3,2%