Rekstrarniðurstaða Íbúðarlánasjóðs var jákvæð um 2,5 milljarða króna, en fyrir sama tímabil í fyrra tapaði sjóðurinn 379 milljónum króna. Nemur því viðsnúningurinn í rekstri sjóðsins tæpum þremur milljörðum króna.

Íbúðum fækkaði um 523

Á tímabilinu fækkaði íbúðum í eigu sjóðsins um 523 íbúðir, en í lok þess voru 825 íbúðir í eigu hans. Bókfært virði íbúðanna er 12,3 milljarðar króna, en á sama tíma nemur fasteignamat eignanna 15,7 milljörðum króna.

Á tímabilinu seldi sjóðurinn 667 íbúðir en leysti til sín 144 íbúðir. Eru um 47% eigna sjóðsins sem eru til sölu í útleigu.

Eigið fé eykst

Í upphafi ársins nam eiginfjárhlutfall sjóðsins 5,46% en er nú 6,45%, en eigið fé hans í lok tímabilsins stendur í 21.781 milljónum króna, en í upphafi tímabilsins stóð það í 19.271 milljón.

Á tímabilinu námu vaxtatekjur sjóðsins 28 milljörðum króna, en á sama tíma í fyrra námu þær 30,25 milljörðum, en hreinar vaxtatekjur námu 525 milljónum króna á tímabilinu en voru neikvæðar um 473 milljónir á sama tímabili í fyrra. Er skýringin að mestu vegna sölu fullnustueigna ásamt fjárfestingu í vaxtaberandi skuldabréfum.

Vegna sölu á leigufélaginu Kletts ehf er búist við að vaxtatekjurnar aukist enn frekar á seinni hluta ársins. Söluhagnaður sjóðsins af sölunni á Leigufélaginu Klett ehf. nam 1.427 milljónum króna.

Rekstrarkostnaður lækkar

Að frádregnum einskiptisliðum sem námu 87 milljónum króna lækkar rekstrarkostnaður sjóðsins um 9,5% milli ára, en hann nam 909 milljónum króna. Fækkaði stöðugildum um 20% frá fyrra ári, en í lok tímabilsins voru þau 76 en á sama tímabili árið 2015 voru þau 95.

útlán sjóðsins voru 614 milljarðar króna þann 30. júní en þá höfðu þau lækkað um 34 milljarða frá áramótum. Nam lántaka sjóðsins 776 milljörðum króna, og lækkaði hún um 8,4 milljarða á tímabilinu. Heildareignirnar námu 798 milljörðum króna.

Vanskil minnkað verulega

Vanskil heimila hafa minnkað verulega á milli tímabila, en í lok tímabilsins voru 98% þeirra með lán sín í skilum. Í lok sama tímabils í fyrra voru 4,3% heimila með þrjá eða fleiri gjalddaga í vanskilum en 30. júní í ár voru þau 2,5%.

Vanskil hafa minnkað umtalsvert á sama tíma og fasteignaverð hefur hækkað umfram verðlag og því hefur tryggingastaða lánasafnsins styrkts.