Hagnaður Garðheima jókst úr 22 milljónum í 139 milljónir króna á milli áranna 2019 og 2020 sökum meiri áhuga á garðvörum í heimsfaraldrinum.

Velta félagsins fór úr 1 milljarði í 1,3 og rekstrarhagnaður úr 32 milljónum í 175 milljónir. Launakostnaður hækkaði úr 287 milljónum í 315 milljónir og kostnaðarverð seldra vara úr 503 milljónum í 640 milljónir.

Sjá einnig: Garðheimar blómstra í COVID

Enda sagði Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Garðheima, frá því í Viðskiptablaðinu síðasta sumar að umsvifin hefðu aukist til muna í faraldrinum. „Mesta aukningu er að finna á sölu inni- og útiplantna og um leið á tengdum vörum svo sem pottum, mold og fræjum. Við höfum verið að finna fyrir auknum áhuga á þessum vörum síðustu ár, en nú eftir COVID varð algjör sprenging hjá okkur," sagði Kristín þá.

Garðheimar stefna að því að flytja í nýtt húsnæði að Álfabakka 6, nærri íþróttasvæði ÍR, á næsta ári.