Mikill vöxtur einkenndi rekstur bresku smásölukeðjunnar Tesco í fyrra. Heildarsala félagsins nam 37,1 mö.punda og jókst um 12,4% frá fyrra ári. Tesco er stærsta smásölukeðjan í Bretlandi og hefur um þriðjungs markaðshlutdeild á matvörumarkaði. Í Bretlandi jókst salan um 12% (nam 29,5 mö.punda) en utan Bretlands var söluaukningin heldur meiri, eða 13,1% (nam 7,6 mö.punda). Hagnaður samstæðunnar fyrir skatta var um 2 ma.punda og jókst um 21% frá fyrra ári. Hagnaður eftir skatta nam 1,4 ma.punda. Stjórnendur Tesco eru ánægðir með árangurinn á síðasta ári samkvæmt tilkynningu félagsins segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Bakkavör hefur notið góðs af velgengni Tesco og verður eftir yfirtöku á Geest stærsti einstaki birgir fyrirtækisins á heimsvísu. Ef Tesco heldur áfram á þessari braut ætti það að koma Bakkvör vel þar sem sala til Tesco var 64% af sölunni á síðasta ári. Eftir yfirtökuna á Geest verður þetta hlutfall um 39%. Vöxtur Tesco ætti einnig að hafa góð áhrif á Seachill, dótturfélag SH, þar sem Seachill er stærsti birgir Tesco í ferskum fiskafurðum.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.