Heildarvelta í kreditkortaviðskiptum nam 49,5 mö.kr. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og jókst um 14,5% frá síðasta ári samkvæmt upplýsingum sem Seðlabankinn hefur nú birt. Á föstu verði og gengi er aukningin 13,6%. Þessi mikli vöxtur er vísbending um hratt vaxandi einkaneyslu um þessar mundir og skýrist af vexti kaupmáttar, hækkun eignaverðs, lækkun langtímavaxta og almennri bjartsýni.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að mikill vöxtur hefur verið í kreditkortaveltu erlendis og var hlutdeild hennar 11,8% í heildarveltu á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 10,9% á sama tímabili í fyrra. Á föstu gengi var veltuaukningin erlendis 35,0% en 11,0% hér innanlands. Þessi mikli munur í veltuaukningu erlendis og innanlands endurspeglar viðbrögð neytenda við gengishækkun krónunnar að undanförnu en gengi krónunnar var tæplega 9% hærra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.