Mikill vöxtur er í starfsemi Samskipa í Asíu og verður þriðja skrifstofa félagsins þar opnuð á mánudag 1. nóvember, í Dalian í Kína. Fyrir eru Samskip með skrifstofu í Pusan í Suður-Kóreu og Qingdao í Kína. Á næsta ári bætast við tvær skrifstofur Samskipa í Asíu, í Tælandi og Víetnam.

Aðalstarfsemi skrifstofanna í Asíu er flutningur á frystum fiski og hefur magnið aukist stöðugt frá því fyrsta skrifstofan var opnuð í Pusan í febrúar á síðasta ári. ?Markmið okkar er að verða leiðandi í heiminum í flutningi og tengdri þjónustu við sjávarútveginn,? segir Einar Þór Guðjónsson, framkvæmdastjóri frysti- og kæliflutningasviðs Samskipa.

Eins og Qingdao er Dalian miðstöð fiskvinnslu í Kína og hefur Rossi Chen verið ráðinn yfirmaður skrifstofunnar þar. Hefur hann unnið við sjávarútveg í Dalian sl. 10 ár og hefur víðtæka þekkingu á þeim markaði. Til að byrja með verða þrír starfsmenn á skrifstofunni í Dalian, fjórir starfa á skrifstofunni í Qingdao og sjö í Pusan, þannig að samtals eru starfsmenn Samskipa í Asíu nú 14 talsins.

Samskip reka nú 33 skrifstofur í 15 löndum auk þess sem starfræktar eru umboðsskrifstofur um heim allan. Hjá Samskipum starfa nú um 850 manns þar af um 200 manns á erlendum vettvangi.