Virðisaukaskattskyld velta í hagkerfinu var ríflega 263 ma.kr. á fyrri árshelmingi og 9,4% meiri en á sama tímabili í fyrra samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær. Velta eykst mikið í greinum sem tengjast einkaneyslu. Þannig jókst velta í smásölu um 8,9%, um 7,6% í umboðsverslun og 26,5% í bílasölu og viðhaldi bíla. Fer þetta heim og saman við tölur Hagstofunnar sem einnig voru birtar í gær og sýna mikinn vöxt einkaneyslu á fyrri árshelmingi. Á þetta er bent í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er einnig bent á að fleiri angar viðskiptalífsins séu einnig í örum vexti um þessar mundir. Þannig var veltan í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð tæpir 20 ma.kr. á fyrri árshelmingi og hafði veltan þar aukist um nær fimtung frá sama tímabili í fyrra. Mikið hefur verið um að vera í þessum geira bæði vegna stóriðjuframkvæmda og aukinna íbúðabygginga. Mikil og vaxandi verslun með íbúðarhúsnæði sést síðan í því að velta fyrirtækja sem starfa við sölu fasteigna hefur einnig aukist um fimtung á milli ára. Með þeim breytingum sem orðið hafa á lánamarkaðinum verður varla bakslag á þeim markaði á næstunni.

Útflutningur hefur verið vaxandi á fyrri helmingi árs. Sást það bæði í hagvaxtartölum þeim sem Hagstofan birti í gær sem og veltutölum. Útflutningur sjávarafurða hefur aukist um 5,6% á þessu tímabili og meira í magni þar sem verð hefur frekar farið lækkandi. Þá hefur útflutningur iðnaðarvarnings án afurða stóriðju verið í góðum vexti. Útflutningur þessara afurða nam tæpum 16 mö.kr. á fyrri árshelmingi og var hann 16,5% meiri en á sama tímabili í fyrra. Síðast en ekki sýst hefur verið góður vöxtur í ferðamennsku en veltan í flugstarfsemi hefur aukist um 28,3% á milli ára, í hótel og veitingarekstri um 9,3% og í starfsemi ferðaskrifstofa hefur aukningin verið 19,4%.

"Ekki verður annað séð af þessum tölum en að mjög góður gangur sé í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Gróskan er nær hvarvetna og almenn bjartsýni ríkjandi. En kapp er best með forsjá. Líkt og við bentum á í nýlegri Þjóðhagsspá okkar veltur framvindan á því hvernig til tekst með hagstjórnina en með henni má koma í veg fyrir hliðarverkannir hratt vaxandi efnahagslífs," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.