Innlend útlán banka og sparisjóða jukust um 38% á síðasta ári eða um 305 ma.kr. samkvæmt gögnum sem Seðlabankinn birti síðastliðinn föstudag. Er það umtalsvert meiri vöxtur útlána en 2003 en þá jukust útlán banka og sparisjóða um 15%. Vöxtur útlána hefur verið bæði í formi lána til fyrirtækja og heimila. Útlán til heimila hafa hins vegar verið áberandi frá því í ágúst eða frá því að bankarnir fóru að bjóða húsnæðislán á sambærilegum kjörum og Íbúðalánasjóður segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Á síðasta ári jukust útlán banka og sparisjóða til heimilanna í landinu um 119 ma.kr. og stóðu þau í 307 mö.kr. í árslok. Ekki er hér um hreina skuldaaukningu að ræða að hálfu heimilanna þar sem stærstur hluti þessarar lántöku hefur verið nýttur til að greiða niður lán hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum. Útlánavöxtur til fyrirtækja var mestur í þjónustugeiranum. Undir þjónustufyrirtæki flokkast fjárfestingarfélög en bankarnir hafa veitt fé til fjárfestinga þessara félaga í hinum ýmsu fyrirtækjum.