Á undanförnum árum hefur orðið til mikilvæg tækniþekking í áliðnaðinum á Íslandi að sögn Hilmars Braga Janusarsonar, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Hann segir að í raun hafi orðið umsnúningur á því hvernig mannauður innan geirans hefði byggst upp á öllum stigum.

„Auðveldast er kannski að benda á að stjórnendur og sérfræðingar álfyrirtækjanna komu í fyrstu að utan, en á síðustu árum hefur þetta snúist við,“ segir Hilmar. „Lykilstjórnendur í fyrirtækjunum eru núna íslenskir og þó nokkrir hafa hlotið framgang innan móðurfélaganna og orðið að lykistjórnendum annars staðar í heiminum. Allt í einu erum við ekki bara þiggjendur heldur líka gefendur í þessum iðnaði.“

Hilmar nefnir Jón Ásgeirsson, Tómas Má Sigurðsson og Janne Sigurðsson sem dæmi. Jón starfaði hjá ÍSAL en var fenginn til að starfa fyrir Rio Tinto í París og Montréal. Tómas Már og Janne voru bæði forstjórar Alcoa á Íslandi en voru síðan fengin til að starfa fyrir félagið annars staðar. Tómas Már var ráðinn forstjóri Alcoa í Evrópu og Mið-Austurlöndum og Janne er forstöðumaður upplýsingatæknimála Alcoa á heimsvísu.

Mikil eftirspurn

Að sögn Hilmars er landslagið hérlendis orðið þannig að mikil eftirspurn er eftir vel menntuðu fólki úr raunvísindagreinum. Nú nýlega hafi til að mynda Elkem á Grundartanga, sem sé að gera mjög spennandi hluti, verið að ráða til sín nýútskrifaðan doktorskandídat í efnafræði.

„Fyrirtækin eru að byggja upp mikla þekkingu og vita að til þess þarf öflugan mannauð,“ segir hann.

Í gegnum árin hafa verið reist nokkur álver á Íslandi og nú er búið að byggja kísilmálmverksmiðju í Helguvík og verið að byggja aðra á Bakka við Húsavík. Þessi stóriðja krefst mikillar orku og eins og staðan er í dag orkuskortur í landinu.

Hærri framlegð

Spurður hvert hið rökrétta framhald sé svarar Hilmar: „Ef við ætlum að byggja upp starfsemi á þessum auðlindum þá verðum við að fá vörur, sem hafa hærri framlegð en 20 til 25%. Það þarf að nota orkuna í ábatasama framleiðslu. Framlegðin þarf að standa undir háum launum, sköttum og þeim umhverfiskröfum sem gerðar eru. Fyrirtæki sem er að skila 10% framlegð er ekki að fara að eyða neinu í rannsóknir og þróun. Til þess að ná árangri umfram þær umhverfiskröfur sem gerðar eru í dag þarf vísindafólk af öllum fræðasviðum að taka höndum saman.“

Nánar er fjallað um málið í Orka & iðnaður , fylgiriti Viðskiptablaðsins . Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .