Umhverfismál hafa verið Jónu Bjarnadóttur hugleikin allt frá því að hún var táningur. Hún var nýlega ráðin framkvæmdastjóri á sviði samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun en hún hefur starfað við umhverfismál innan Landsvirkjunar frá árinu 2014.

„Mér finnst frábært að Landsvirkjun, sem hefur verið leiðandi í umhverfismálum, sé að lyfta upp og auka vægi umhverfis- og samfélagsmála enn frekar. Eins og ég lít á það mun þetta nýja svið vera í lykilhlutverki við að samþætta áherslur fyrirtækisins í samfélags-, umhverfis- og loftslagsmálum og setja aukinn kraft og vægi á þessa málaflokka hjá okkur," segir Jóna.

Jóna lauk BS námi í lífefnafræði við Háskóla Íslands á árum áður, þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, Stefáni Jónssyni. Jóna og Stefán eiga saman þrjár dætur sem eru 21 árs, 17 ára og 10 ára. Miðdóttir þeirra er á einhverfurófi og hefur sú reynsla mótað Jónu og veitt henni innblástur.

„Það er mikil vegferð og lærdómsríkt að fylgja barni á einhverfurófi í gegnum það ferli að yfirstíga áskoranir sínar, aðlagast samfélaginu og öðlast rödd. Á þessari vegferð sá maður hve einstaklingar með sérþarfir eru jaðarsettir í samfélaginu," segir Jóna en bætir við að dóttur hennar hafi gengið vel að yfirstíga áskoranir sínar og blómstri í dag.

„Hún hefur komist á þann stað að hún getur gert hvað sem hún vill í lífinu, sama hvert sem hún setur stefnuna. Vegferðin með henni hefur svo sannarlega hreyft við gildum manns og viðhorfi, og mótað mann bæði sem einstakling og sem stjórnanda. Mér þykir ofboðslega mikilvægt að allir hafi rödd í samfélaginu og það endurspeglast líka í störfum mínum, þar sem ég brenn fyrir því að gefa umhverfinu rödd."

Umhverfismálin hafa enda verið rauði þráðurinn á starfsferli Jónu. „Það má segja að ég hafi náð að móta starfsferil minn í kringum þessar áherslur mínar, að ég hafi alltaf verið á sömu vegferðinni. Mér þykir mikilvægt að ungt fólk átti sig á því að það er mögulegt að elta ástríðu sína í námi og starfi. Það eru mikil lífsgæði að starfa við hugðarefni sín, eitthvað sem maður brennur fyrir," segir Jóna að lokum .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .