*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 4. september 2016 11:17

Mikilvægt að auka framboðið

Greiningardeild Arion banka telur framboðsaukningu á húsnæði hafa verið of hæga.

Alexander F. Einarsson
Konráð S. Guðjónsson hjá greiningardeild Arion banka.
Aðsend mynd

Ekki er útilokað að áframhaldandi fjölgun innflutts vinnuafls til landsins komi með að ýta enn frekar undir hækkun húsnæð- isverðs á næstunni. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 12,4% undanfarna 12 mánuði og um rúm 32% á þremur árum. Á fyrri helmingi þessa árs fluttust 2.490 manns til landsins umfram brottflutta og þar af voru einungis 40 Íslendingar. Um er að ræða umtalsverða aukningu frá síðustu árum, en í fyrra fluttust í heild 1.451 fleiri til landsins en frá því og árið 2014 voru aðfluttir umfram brottflutta 1.113 talsins.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, telur ekki ólíklegt að aukinn fólksflutningur til landsins muni hafa hækkandi áhrif á fasteignaverð. Hækkunin hafi til þessa verið í takt við kaupmáttaraukningu en hins vegar sé ljóst að framboð þurfi að taka við sér til að anna aukinni eftirspurn.

„Ef þetta heldur áfram þannig að ekki sé byggt nóg til að mæta þessari eftirspurn, lýðfræðilegum þáttum ofan á fjölgun ferðamanna, gætir áhrifanna ennþá meira þegar fram í sækir,“ segir Konráð.

Hann telur að fjölgun ferðamanna og þörf þeirra fyrir gistirými komi til með að gegna stóru hlutverki á eftirspurnarhliðinni. Merki séu um að framboðið sé að færast í aukana, virðisaukaskattsvelta af byggingu húsnæðis hefur hækkað hressilega og innflutningur byggingarefnis aukist.

„En hingað til hefur það verið okkar skoðun að þetta hafi verið að gerast of hægt. Ef þetta gerist ekki í takt við eftirspurnina getur þetta komið of seint, eftirspurnin getur breyst svo hratt en framboðið er svo ofboðslega tregbreytanlegt. Þess vegna vonar maður að það sé byggt núna því það vantar alveg vafalaust nýtt húsnæði,“ segir Konráð. Jafnframt verði að gæta þess að fara ekki offari í byggingu nýs húsnæðis líkt og gerðist fyrir hrun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.