Atvinnulífið þarf sjálft að hafa frumkvæði að því að endurheimta traustið sem tapaðist í hruninu, að sögn Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar. Hann hélt lokaerindi á ráðstefnunni Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum, sem haldin var í Háskóla Íslands í vikunni.

Páll sagði: „Ein niðurstaða af rannsóknum á aðdraganda bankahrunsins sem flestir geta sennilega verið sammála um er að hér á landi var stjórnarháttum víða ábótavant.  Traust til atvinnulífsins beið hnekki.  Gagnkvæmt traust aðila að viðskiptum er ein forsenda frjálsra viðskipta. Þegar traustið tapaðist glötuðust jafnframt mikil verðmæti. Það var því rökrétt að atvinnulífið sjálft skyldi hafa frumkvæði að því að reyna að endurheimta þessi verðmæti.“