Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans, sagði í dag skuldavanda evrusvæðisins geta ógnað fjármálakerfi myntbandalagsins. Orð bankastjórans fóru ekki vel í fjárfesta og ýttu þau undir verðlækkun á hlutabréfamarkaði.

Bankastjórinn sat fyrir svörum hjá efnahags- og peningamálanefnd Evrópuþingsins í Brussel í dag og fór hann þar yfir skuldavanda evruríkjanna.

Þar sagði hann meðal annars að efnahagur aðildarríkja myntbandalagsins væri samofinn þar sem eitt landið eigi skuldabréf annars ríkis. Af því geti skapast áhætta.

Trichet þrýsti á ríkisstjórnir aðildarríkja myntbandalagsins að koma sér saman um lausn á skuldavandanum og hvernig bankar í vanda verði endurfjármagnaðir. Nái þau ekki saman geti það haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Innstæður banka og fjármálafyrirtækja hjá evrópska seðlabankanum eru vísbendingar um að óvissa hefur aukist verulega á evrusvæðinu. Innstæðurnar námu 269 milljörðum evra í gær.

Upphæðin sem bankarnir geyma þar yfir nótt hefur ekki verið hærri síðan í júní í fyrra, að sögn fréttastofu Reuters.