Ósk Heiða Sveinsdóttir var ráðin markaðsstjóri Krónunnar og Kjarvals nýlega. Krónan og Kjarval eru hluti af samstæðu Festi hf. sem sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja. Ósk Heiða er með mastersgráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá Háskóla Íslands. Hluti námsins var tekinn við Copenhagen Business School.

Hún segir smásölubransann spennandi og hraðann, og fullan af tækifærum. „Smásala er nýr bransi fyrir mér. Það eru gríðarleg tækifæri og ótrú­ lega spennandi fyrir markaðsmanneskju fyrir mig að vera hluti af honum,“ segir Ósk Heiða. „Það er gaman í vinnunni. Það er líf og fjör, hraði og mikill metnaður til að ná árangri.“

Ósk Heiða kom til starfa í byrjun árs og mun hún meðal annars sjá um mótun og eftirfylgni markaðsstefnu auk daglegrar stýringar á markaðsstarfi Krónunnar og Kjarvals. Ósk Heiða starfaði áður sem markaðsstjóri Íslandshótela og þar áður í markaðsdeild Advania og markaðsstjóri HugarAx.

„Teymið sem ég er að vinna með er mjög gott. Það er mikill metnaður og skýr framtíðarsýn. Það er mikill hraði og mikið að gerast. Það eru miklir möguleikar að búa til spennandi verkefni í kringum þessi þekktu vörumerki sem Krónan og Kjarval eru. Ég horfi spennt til framtíðar.”

Hlaða batteríin á ferðalögum

Ósk segist lesa mikið af markaðsfræðilegu efni til þess að hún fari ekki á mis við nýjustu strauma og stefnur innan greinarinnar. Henni finnst stafræni heimurinn bjóða upp á mikla möguleika fyrir fyrirtæki.

„Ég legg mikið upp úr því að fylgjast með því sem er að gerast innan markaðsfræðinnar. Fylgjast með rannsóknum og lesa nýjar fræðibækur og greinar. Þetta er kannski sérstaklega af því að þessi stafræni heimur býður upp á svo mikla möguleika fyrir fyrirtæki, og þar af leiðandi er mjög mikilvægt að fylgjast með vel með, svo hægt sé að nýta sér það.“