Um miðjan síðasta mánuð greindi tryggingafélagið Sjóvá frá því að hagnaður síðasta árs hefði numið 3,9 milljörðum króna og skiptist hagnaðurinn nokkuð jafnt á milli vátryggingastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Þá var samsett hlutfall 95,1%, en samsett hlutfall endurspeglar hvernig rekstur vátryggingarhlutans gengur. Í einföldu máli er um að ræða hlutfall iðgjalda annars vegar og útgjalda vátrygginga hins vegar. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, segir að líkt og ofangreindar tölur sýni hafi árið 2019 verið félaginu hagfellt. Markmið félagsins sé að byggja ekki afkomuna um of á fjárfestingatekjum heldur að grunnreksturinn, vátryggingareksturinn, sé sjálfbær.

„Þetta er sterkasta uppgjör sem Sjóvá hefur sent frá sér í nokkurn tíma og vorum við þó á góðri siglingu fyrir. Það sem er einkar ánægjulegt við þetta uppgjör er að það er jöfn skipting á milli afkomu úr vátryggingastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Það þykir okkur mjög jákvætt, þar sem að við höfum alltaf litið svo á að vátryggingastarfsemin sé þáttur sem við getum haft mikil áhrif á. Fjárfestingarstarfsemin er hins vegar háð hinum ýmsu ytri aðstæðum. Það er auðvitað hægt að hafa áhrif á hana með vali á fjárfestingastefnu, en í vátryggingastarfseminni erum við engu að síður meira við stýrið.

Allt frá því að Sjóvá var skráð á markað árið 2014, hefur það verið eitt helsta keppikefli okkar að ná góðri niðurstöðu úr vátryggingastarfseminni og ná eðlilegri arðsemi út úr þeim hluta. Það lítur að mörgum þáttum líkt og kostnaði hér innanhúss, iðgjöldum og tjónaumsýslu. Með því að ná góðum tökum á þessum þáttum getum við skilað ábyrgum og góðum rekstri, og það hefur okkur tekist."

Afkoma af vátryggingarekstri jákvæð 15 fjórðunga í röð

Hermann bendir á að af síðustu 20 fjórðungum sem félagið hafi birt uppgjör séu 18 þeirra með jákvæða afkomu úr vátryggingarekstrinum, auk þess sem afkoma úr þeim hluta hafi síðustu 15 ársfjórðunga í röð verið jákvæð.

„Ég er nokkuð viss um að þetta sé einsdæmi hjá íslensku tryggingarfélagi. Það sem einkenndi tryggingafélögin fyrir hrun voru gríðarlegar tekjur af fjárfestingarstarfseminni en grunnreksturinn, sem er vátryggingastarfsemin, var ekki góður. Það þykir mér ekki ábyrgt og nú þegar vaxtaþróunin er með þeim hætti sem hún er í dag, er fyrirséð að það muni draga úr fjárfestingartekjum, sem eykur pressuna á tryggingafélögin að skila jákvæðri afkomu út úr vátryggingastarfseminni.

Það ríkir hörð samkeppni á tryggingamarkaði, en það hefur fjölgað mikið í góðum hópi okkar viðskiptavina. Á milli áranna 2017 og 2018 stækkuðum við um 11% og á milli 2018 og 2019 um 14%. Það er jákvæð sveifla með okkur og höfum við verið að ná býsna góðum árangri á þessum mikla samkeppnismarkaði. Það er því ljóst að sú áhersla sem við leggjum á að veita framúrskarandi þjónustu er að svara kalli viðskiptavina."

Hermann segir að vátryggingarekstur Sjóvá sé orðinn það sterkur að hann geti staðið af sér nokkur stórtjón, án þess að samsett hlutfall fari um eða yfir 100%.

„Árið 2018 var sem dæmi gríðarlega tjónaþungt ár hjá okkur og áttu sér stað tveir stórir brunar á sama ársfjórðungnum. Þrátt fyrir það enduðum við árið í 97,4 % samsettu hlutfalli, en á árum áður hefðu þessi tjón skilað okkur langt yfir 100%. Það þýðir að undirliggjandi reksturinn okkar er orðinn betur í stakk búinn til að ráða við slík tjón. Sem dæmi höfum við áætlað að samsett hlutfall árið 2020 verði 95% og erum við þá að gera ráð fyrir a.m.k. tveimur stórtjónum á árinu í áætlunum okkar."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .