*

fimmtudagur, 21. október 2021
Innlent 19. júní 2014 15:05

Mikilvægt að hafa jafnvægi á milli vinnu og einkalífs

Kristín Friðgeirsdóttir kennari í MBA og stjórnendanámi segir mikilvægt að átta sig á því hvað heldur manni gangandi.

Ritstjórn

Í tilefni af kvennadeginum hefur Viðskiptablaðið tekið saman góð ráð kvenna sem birtast í bókinni Tækifærin eftir Hjördísi Hugrúnu Sigurðardóttur og Ólöfu Rún Skúladóttur þar sem rætt er við 50 íslenskar konur í forvitnilegum störfum á Íslandi og erlendis. Allar eiga konurnar það sameiginlegt að hafa lokið námi á sviði tækni og raunvísinda og hafa gert það gott í atvinnulífinu.

Kristín Friðgeirsdóttir kennir í MBA og stjórnendanámi í London Business School og stundar rannsóknir og ráðgjöf á sviði ákvörðunartöku. Hún situr einnig í stjórn Háskólans í Reykjavík, Haga, Distica og TM.

Kristín fór í véla- og iðnaðarverkfræði í Háskóla Íslands eftir brautskráningu frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk svo bæði meistaranámi og doktorsnámi við Stanford háskólann í Kaliforníu.

Varðandi góð ráð segir Kristín mikilvægt að hafa jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. „Þetta er að mörgu leyt maraþon. Mikilvægt er að átta sig á því hvað heldur manni gangandi. Fyrir mig skiptir máli að hreyfa mig og hugsa um eitthvað annað. Ég horfði upp á samstarfsmenn mína sem voru í vinnunni allan daginn og öll kvöld, það hentaði mér engan veginn þó svo að ég sé alltaf tilbúin að leggja mikið á mig.“ Kristín segir að það hafi tekið hana smá tíma að læra að gott sé að fá álit frá öðrum fyrr en seinna. „Fólk hefur tilhneigingu til að vilja fullkomna verkið áður en það sýnir öðrum það. Slíkt getur verið tímasóun. Allir gera einhver mistök sem læra má af en gott er að finna út sem fyrst hvað má betur fara. Þá er mjög æskilegt að geta sett fram hugmyndir og rætt við einhvern reynslumeiri um þær og hvernig sé mögulegt að vinna úr þeim. 

Nánar má lesa um forvitnileg störf og nám viðmælendanna fimmtíu í bókinni Tækifærin.

Stikkorð: Tækifærin