Ásmundur Þór Sveinsson og félagar hans, Magnús Már Kristinsson og Vilhjálmur Þór Kristjánsson, sem þá unnu saman á handverksbarnum Mikkeller & friends í Reykjavík, ákváðu fyrir stuttu að stofna sinn eigin bar. Þeir sáu fyrir sér stað þar sem hægt væri að slaka á og fá góðan bjór. „Við erum þrír þarna sem komum að þessu. Byrjuðum tveir, unnum saman og höfum mikinn áhuga á bjór, þannig að okkur langaði að opna stað þar sem við myndum vilja slaka á og fá góðan bjór.“

Ekki verið að finna upp hjólið
Félögunum fannst vöntun á stað með rólega stemningu og gott úrval af góðum bjór og vínum. „Það er ekki mikið úrval af stöðum þar sem þú getur setið á fimmtudags-, föstudags- eða laugardagskvöldi, með lágstemmda tónlist, rólegum stöðum, þar sem er verið að einbeita sér að gæðum í bjór og vínum. Við vöndum okkur mjög vel í léttvínsúrvali, við bjóðum uppá þónokkuð dýrari vín en kannski gengur og gerist, í glösum, á mjög hófstilltu verði. Það er ekkert verið að finna upp hjólið, það er bara verið að gera þetta ógeðslega vel.“

Þeir fengu svo innanhússhönnunarfyrirtæki til að hanna með sér útlitið. „Við fórum af stað með HAF Studio með hugmyndir að staðnum, bæði útliti og uppstillingu og annað. Mér finnst þetta alveg frábærlega vel heppnaður staður, falleg hönnun, svona heiðarleg, bara eins og staðurinn átti að vera, enginn fallegur gjafapappír.“

Mikill uppgangur þrátt fyrir að innflutningur sé erfiður
Ási, eins og hann er kallaður, segir miklu skipta að handverksbjór sé meðhöndlaður rétt. „Handverksbjór er náttúrulega ferskvara að miklu leyti. Okkur fannst svolítið vanta upp á að hann sé meðhöndlaður sem ferskvara, svo við fórum út í þetta að setja upp craftbjórstað með stórum kútakæli, til að geta tryggt að hann fái þá kælingu sem hann á skilið og við getum haft þetta sem ferskustu vöruna.“

Þrátt fyrir að handverksbjór sé töluvert dýrari en vinsælar tegundir sem seljast í massavís segir Ási sprengingu í áhuga á honum á Íslandi upp á síðkastið hafa gert það að verkum að landslagið sé allt annað nú en fyrir nokkrum árum. „Það sem er vandamálið á Íslandi er að handverksbjór er erfiður í innflutningi, þetta eru litlar framleiðslur oft og þær eru dýrari, og oft er áfengisprósentan hærri en á venjulegum lagerum. Það er því frábært hversu hratt handverksmenningin er að vaxa hérna, Ísland er komið langt fram úr mörgum öðrum Evrópuríkjum í framleiðslu og framboði á handverksbjór. Það er alveg dýrt að flytja inn erlendan handverksbjór, en það hefur ekki haft meiri áhrif en svo að það er mikill uppgangur í því í dag.“

Bjórbannið tvímælalaust haft sitt að segja
Aðspurður segir Ásmundur bjórbannið sem var í gildi hér til ársins 1989 tvímælalaust hafa haft sitt að segja um einhæfni bjórmenningar hér á landi framan af. Það sé þó allt að færast til betri vegar. „Þú vilt bara sitja og fá þér einn léttan, ferskan bjór, og ert kannski með viku gamlan frábæran Session IPA, „solid“ 4,5% bjór, með passlegri beiskju, passlegum ávöxtum, alveg brakandi ferskan. Þetta er svona augnablik sem maður hefur ekki oft upplifað hérna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .