Jóhann P. Malmquist hefur starfað sem prófessor við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands í rúmlega þrjá áratugi. Á þeim tíma hefur hann lagt mikla áherslu á að mennta nemendur í nýsköpun, til dæmis með námskeiðinu frá „Frá hugmynd að veruleika" sem hann hefur kennt í yfir þrjá áratugi.

„Það eru tæplega 700 nemendur sem hafa farið í gegnum frumkvöðlanámskeið hjá mér og sumir þeirra hafa síðar stofnað sprotafyrirtæki sem hafa náð langt á alþjóðavísu," segir Jóhann.

Að sögn Jóhanns fannst honum liggja vel við fyrir Íslendinga að hefja útflutning á hugbúnaði.

„Á víkingatíma fluttum við Íslendingar út ljóð og fengu skáldin vel launað fyrir það. Í smæð þjóðfélagsins felst ákveðinn styrkur vegna þess að í litlu þjóðfélagi hefur þú betri yfirsýn yfir hvernig hlutirnir eru að virka innan þess. Það er þó alls ekki auðvelt að koma vöru á framfæri, þá sérstaklega erlendis, og það skiptir miklu máli að hafa staðið sig vel á heimamarkaði áður en hugað er að sókn á erlenda markaði. En það getur verið erfitt að komast áfram á heimamarkaði ef fólk er ekki með mikil sambönd og stórt tengslanet. Tengslanetið skiptir svo ekki síður máli þegar á erlenda markaði er komið."

Hægt að komast langt á lítilli fjárfestingu

Líkt og áður hefur komið fram hefur Jóhann kennt frumkvöðlanámskeið í Háskóla Íslands í rúm þrjátíu ár. Jóhann segir að ýmsar breytingar hafi átt sér stað á þessum tíma í umhverfi nýsköpunarfyrirtækja.

„Hvað varðar sprotaumhverfið í hugbúnaðargeiranum, er allt annað að koma hlutum á framfæri í dag - það er hægt að komast mjög langt með góða hugmynd, á tiltölulega lítilli fjárfestingu. Það er ótrúlegur munur á umhverfinu í dag miðað við hvernig það var áður, sem kemur fyrst og fremst til út af þeirri öflugu þjónustu sem stendur til boða í dag miðað við þá takmörkuðu þjónustu sem var í boði fyrir einhverjum árum síðan. Gífurleg innviðauppbygging hefur sömuleiðis átt sér stað innan geirans og sprotafyrirtæki komast af með mun minni yfirbyggingu í dag heldur en á sínum tíma."

Nemendur læri af hans mistökum

Samhliða prófessorsstörfum hefur Jóhann komið að stofnun fjölda sprotafyrirtækja. Meðal fyrirtækja sem hann hefur komið að sem stofnandi og stjórnarmeðlimur má nefna Open Hand, Hugvit, Form.is, Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, Grænar lausnir, Tákn með tali, Globe Tracker, Hugvakinn, Retina Risk og nú síðast Etýða.

Jóhann segir þá reynslu sem hann hefur öðlast á því að koma að stofnun ofangreindra fyrirtækja, hafa komið sér mjög vel í kennslunni. „Þú verður að hafa reynt hlutina ef þú ætlar að geta kennt þá - það dugar ekki bara að hafa lesið sér til í einhverjum bókum. Í minni kennslu legg ég mikla áherslu og segi nemendum að taka vel eftir, þegar ég er að tala um mistök, þannig að þau geri ekki sömu mistök og ég hef gert. Þú kemst þó ekkert áfram án þess að gera mistök en eins og ég segi oft við nemendur mína, þá er lykilatriðið að mistakast hratt og ódýrt," segir hann og bætir við:

„Svo skiptir auðvitað miklu máli að koma hugmynd á framfæri á réttum tíma og ná réttu samböndunum. Fólk þarf einnig að vera búið að átta sig á því hvernig það ætli að móta þessa hugmynd og hrinda henni í framkvæmd. Það má heldur ekki gleyma því að fólk þarf auk þess að vera heppið, en það er hægt að vinna að því að verða heppinn með því að vera tilbúinn og geta sagt frá hugmyndinni sinni skýrt og skilmerkilega svo að fólk, sem er ekki enn komið á þennan stað, skilji hvað þú ert að gera."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .