Verðtryggingarnefnd, undir formennsku Eyglóar Harðardóttur, leggur í skýrslu sinni, sem afhent var efnahags- og viðskiptaráðherra í morgun, áherslu á að ná verði tökum á verðbólgu. Forsenda þess er ábyrg stjórnun efnahagsmála og að mati nefndarinnar þarf að bæta hagstjórn og auka virkni peningastefnunnar með upptöku þjóðhagsvarúðartækja.

Til þess að draga úr vægi verðtryggingar á íslenskum lánamarkaði telur nefndin „að tryggja verði fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum lánum og skuldabréfum. Hluti af því er útgáfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á óverðtryggðum skuldabréfum og að Íbúðalánasjóður bjóði upp á óverðtryggð húsnæðislán. Hvatt verði til sparnaðar vegna kaupa á fasteign og búseturétti,“ segir í samantektarkafla skýrslu nefndarinnar.

Jafnframt er mikilvægi þess að efla fjármálalæsi almennings, upplýsingamiðlun við sparnað og lántöku og neytendavernd til að sporna gegn ofskuldsetningu og áhættu tengda ólíkum lánaformum áréttað í skýrslunni.