*

sunnudagur, 19. janúar 2020
Innlent 16. desember 2017 16:02

Mikilvægt að orðum fylgi gjörðir

Frásagnir af kynferðislegri áreitni karla í garð samstarfskvenna koma formanni Félags kvenna í atvinnulífinu því miður ekki á óvart.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Það kemur mér í rauninni ekki á óvart hversu rótgróið þetta er,“ segir Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), um þær frásagnir kvenna sem birst hafa daglega undanfarnar vikur af kynferðislegri áreitni karlmanna í garð samstarfskvenna.

„Því miður þá geta allt of margar konur samsamað sig þessum frásögnum. Hins vegar kemur mér á óvart hversu sterk og víðtæk þessi bylgja er. Ég upplifi hana það sterka, bæði heima og erlendis, að við munum sjá varanlegar breytingar. Þessi samstaða kvenna er í rauninni nútímabylting. Það er þó þannig að þessu sögðu að nú horfum við til þess hversu alvarlega atvinnulífið fylgir því eftir að gera breytingar og vera vakandi. Í of mörgum málum og þá sérstaklega jafnréttismálum virðumst við stundum falla í þá gryfju að við tölum um breytingar og það sem við ætlum að gera en síðan gerist ekkert,“ segir Rakel.

Orðum fylgi gjörðir

Rakel gerir ráð fyrir að FKA muni fylgja umræðunni eftir í orðum og gjörðum. „Fyrir okkur er þetta ekki bylting eða umræða sem klárast í desember eða janúar. Markmiðið hjá okkur er að beita okkur fyrir að þessu verði fylgt eftir og að sú staða komi ekki upp að þegar umræðan fer að lægja að aðgerðir fylgi ekki af fullum krafti í kjölfarið.“ Rakel bendir á mikilvægi þess að tryggja að konur standi ekki einar í stjórnendahópi í karllægu umhverfi. Hún segir engan vafa leika á því að það sem konur greina frá hafi haldið aftur af konum.

„Ég þekki allt of mörg dæmi um konur sem hafa jafnvel fælst frá ákveðnu umhverfi eða hreinlega tilteknum fyrirtækjum vegna þess að þar hafa ákveðin viðhorf og framkoma verið liðin. Ég tek samt sem áður fram, sem skiptir rosalega miklu máli í #metoo umræðunni, að stuðningur karlmanna er mesti stuðningur sem við fáum. Þegar karlmenn stíga inn og segjast ekki hafa áttað sig á þessu og vilji líka uppræta þetta. Það skiptir gífurlegu máli. Auðvitað er það þannig að í langflestum tilvikum hegða karlmenn sér ekki illa gagnvart konum,“ segir Rakel.

„En það eru alltaf þessir svörtu sauðir. Þeir brjóta ekki af sér bara einu sinni eða tvisvar heldur í langflestum tilvikum ítrekað. Þeir hegða sér á óviðeigandi hátt og valda vanlíðan árum saman hjá mörgum konum. Það þurfum við að uppræta og það munu koma upp tilvik þar sem atvinnurekandi þarf að horfast í augu við að karlkyns starfsmaður, sem hefur kannski verið mjög verðmætur í langan tíma, þarf að fara. Það mun reyna á stjórnendur þegar við erum komin yfir umræðuhæðina sem við erum í núna. Þeir munu þurfa að taka erfiðar ákvarðanir,“ segir Rakel.

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: FKA Rakel Sveinsdóttir #metoo