Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, segir mikilvægt að halda áfram góðu samtali við Rússland þrátt fyrir aukna spennu milli Rússa og Atlantshafssambandsins NATO. Lilja er stödd á leiðtogafundi NATO í Varsjá, en þar hafa hin ýmsu mál tengd öryggi aðildarríkjanna verið rædd.

„Það er auðvitað ákveðinn ágreiningur en við leggjum áherslu á að það sé brýnt að halda áfram samtali til að koma sjónarmiðum á framfæri og minnka spennu,“ segir Lilja í samtali við hádegisfréttir RÚV, en Ísland er meðal landa sem styðja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum og er sjálft undir viðskiptaþvingunum af þeirra hálfu.

Lilja hefur jafnframt fundað með utanríkisráðherra og fulltrúum Bretlands og ítrekar að mikilvægt sé að halda samskiptum við þá síðarnefndu góðum í tengslum við útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu.

„Þetta voru mjög gagnlegir fundir og ég lagði að sjálfsögðu áherslu á þá miklu efnahagslegu hagsmuni sem eru undirliggjandi vegna þessa og við ákváðum að viðhalda reglulegu samtali á næstu vikum og horfa til þess að það sé mjög brýnt að þessi ríki haldi áfram góðu samstarfi,“ sagði Lilja.