Gerður Huld Arinbjarnardóttir, einnig þekkt sem Gerður í Blush, mun gefa kost á sér til stjórnar Ölgerðarinnar á aðalfundi félagsins á fimmtudaginn. Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið að hún eigi ekki hlut í Ölgerðinni en hafi verið hvött til að gefa kost á sér og telur sig passa mjög vel í það starf.

„Ég hef víðtæka þekkingu og reynslu af markaðsstörfum, vöruþróun og uppbyggingu vörumerkja sem mun nýtast vel í þessu starfi, ásamt því að hafa rekið fyrirtæki síðustu 12 árin með góðum árangri.“

Gerður stofnaði fyrirtækið Blush árið 2011 og aðeins áratug síðar var fyrirtækið valið Besta íslenska Vörumerkið tvö ár í röð. Gerður var meðal annars valin Markaðsmanneskja ársins 2021.

Gerður Huld var valin Markaðsmanneskja ársins 2021.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Mínir styrkleikar liggja í markaðsmálum, vöruþróun og uppbyggingu vörumerkja. Ég hef verið þekkt fyrir að fara óhefðbundnar leiðir í mínum markaðsstörfum og er mjög skapandi í hugsun svo ég stefni á að koma með þá hlið inn. Ég er einlæg, heiðarleg og fylgin sjálfri mér og ég held að það séu kostir sem klárlega nýtast mér í stjórnarsetu hjá Ölgerðinni.“

Á Facbook síðu sinni skömmu fyrir helgi greindi Gerður einnig frá því að hún væri komin í samstarf við Ölgerðina. Hún á engin hlutabréf í félaginu en hafði samband við Ölgerðina fyrir ári síðan með hugmynd af nýjum drykk sem kallast Mist. Að hennar sögn hefur samstarfið gengið mjög vel og hafi áhuginn til að vinna meira með Ölgerðinni kviknað út frá Mist verkefninu.

Gerður og Ölgerðin hafa þróað saman drykkin Mist.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Ég hef fengið tækifæri til að kynnast starfsfólki og starfsemi Ölgerðarinnar síðasta árið og má segja að ég hafi heillast af fyrirtækinu. Ekki bara vöruúrvalinu, heldur líka menningu fyrirtækisins, framtíðarsýn og stjórnarháttum. Ég hef hins vegar alltaf verið mikill aðdáandi Ölgerðarinnar og er líklega einn harðasti Mix aðdáandi sem finnst á Íslandi.“

Hún segist hlakka til að sjá hvernig niðurstaðan verður á fimmtudaginn en hvort sem hún endi í stjórn eða ekki þá segist hún allavega vera búin að lýsa yfir eigin áhuga á stjórnarstarfi.

„Það er mikilvægt að rétta upp hönd og gefa kost á sér ef maður hefur áhuga. Ég hef lært það í gegnum árin að vera óhrædd og hafa trú á sjálfri mér og skapa mín eigin tækifæri,“ segir Gerður.