Ein helsta leið ríkisstjórnarinnar til að efla nýfjárfestingar hér á landi hefur falist í gerð svokallaðra fjárfestingasamninga eða ívilnanasamninga. Þessir samningar fela í sér að fyrirtæki fá ríkisaðstoð í formi afsláttar af sköttum og opinberum gjöldum. Frá september 2013 til febrúar 2015 gerðu stjórnvöld sex samninga af þessu tagi. Samið var við kísilverksmiðjurnar PCC, United Silicon, Thorsil og Silicor Materials en einnig líftæknifyrirtækið Algalíf og fiskeldisfyrirtækið Matorku. Samningarnir sex fólu í sér ívilnanir upp á 9,6 milljarða króna.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um þessa samninga á sínum tíma og þá sérstaklega samninginn við Matorku enda var hann harðlega gagnrýndur og þá sérstaklega af hagsmunaaðilum í fiskeldi, sem töldu ótækt að ríkið styrkti einn framleiðanda umfram annan. Slíkt væri til þess fallið að skekkja samkeppnina á markaðnum.

Þó stjórnvöld hafi gert sex fjárfestingarsamninga á einu og hálfu ári hefur enginn slíkur samningur verið gerður síðan samið var við Matorku fyrir rétt rúmu ári síðan. Ný lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi voru til umfjöllunar í þinginu þegar umræðan um Matorku-samninginn stóð sem hæst. Eldri lögin voru þá fallin úr gildi. Nýju lögin voru samþykkt í júlí á síðasta ári og gerð var sú breyting að nú ber þriggja manna nefnd, sem skipuð er af ráðherra, að afla mats Byggðastofnunar á byggðaþróun og áhrifum samninga á atvinnulíf.

Í athugasemdum við þingsályktunartillögu um stefnu um nýfjarfestingar, sem nú er til umræðu í þinginu, segir: „Reynslan hefur sýnt að mörg þeirra fjárfestingarverkefna sem notið hafa opinberrar fyrirgreiðslu hafa verið uppspretta fyrir ný fyrirtæki og framleiðslu sem á eigin forsendum hafa reynst mikilvægir vaxtarbroddar fyrir samfélagið."

Viðskiptaráð Íslands, sem styður tillöguna, fjallar í umsögn sinni um einmitt þetta og bendir á að við mótun aðgerða til að efla nýfjárfestingar sé „mikilvægt að stjórnvöld þekki mörk sín. Þannig ættu stjórnvöld að einbeita sér að því að skapa sem hagfelld almenn skilyrði fyrir fjárfestingu í öllum atvinnugreinum í stað þess að veita tilteknum atvinnugreinum eða fyrirtækjum forskot umfram aðra."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .