Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir mikilvægt að tryggja fyrirsjáanleika í sjávarútvegi með úthlutun makrílkvóta til 6 ára. Þessu greinir RÚV frá.

Eins og VB.is greindi frá höfðu í hádeginu yfir 23 þúsund skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að vísa öllum þeim lögum sem Alþingi samþykkir um ráðstöfun fiskveiðiauðlinda, til lengri tíma en eins árs, til þjóðarinnar.

Í makrílfrumvarpi Sigurðar Inga er lagt til að veiðiheimildum verði úthlutað til sex ára í senn, en fram að þessu hefur þeim verið úthlutað ótímabundið.

Sigurður Ingi segir í samtali við RÚV það ekki langan tíma og langt í frá að það sé varanleg úthlutun. Hann segist hlusta á alla gagnrýni, en að það sé erfitt að hlusta á þá gagnrýni að það sé ekki kostur að það sé fyrirsjáanleiki í grein.

Hann segir að makrílkvóta sé úthlutað til lengri tíma með tilliti til fjárfestinga, markaða og veiðitíma. Mikilvægt sé að kveða skýrt á um tímabundin veiðiréttindi fyrir makríl þar sem meiri óvissa sé um hann en aðra fiskistofna, á meðan ekki hefur tekist að ljúka lagasetningu um tímabundna leigusamninga fyrir alla fiskistofna.