Miðað við fjölda umsókna um leyfi fyrir laxeldi er óhætt að tala um að hér á landi sé að verða sprenging í þessari atvinnugrein.  Útlit er fyrir að framleiðslan mun margfaldast á næstu árum á Vestfjörðum og Austfjörðum.

„Við erum stundum svolítið öfgafull þjóð, við viljum oft gera hlutina einn, tveir og þrír án þess að gefa okkur tíma til að skoða málin vel," segir Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra um sjókvíaeldi á laxi.

„Sem umhverfisráðherra tel ég að það þurfi mjög huga að umhverfisáhrifum vegna laxeldis. Fyrir 25 árum, þegar ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur, var verið að huga að laxeldi við Viðey. Ég sökkti mér talsvert ofan í málið á þeim tíma og það kom mér verulega á óvart hvað lífrænn úrgangur frá laxeldi getur mengað. Manni var tamt að líta þannig á að eitthvað sem gæti vaxið á Íslandi væri nú bara af hinu góða. Ég er ekki sérfræðingur í þessum málum og vil ekki gefa mig út fyrir það en ég held að mín greining og mótmæli hafi breytt skoðun meirihluta borgarstjórnar á þessum tíma þannig að hætt var við þetta laxeldi."

Ströng skilyrði

Sigrún segir að villti íslenski laxastofninn sé með sín einkenni og því þurfi að varðveita stofninn.

„Það er gríðarlega mikilvægt að við pössum okkur. Við verðum að hafa allar reglur eins strangar og við mögulega getum en þó ekki þannig að við séum algjörlega að banna laxeldi en það verða vera mjög ströng skilyrði fyrir þessari framleiðslu.
Við verðum að gæta mjög að okkur og ganga hægt um gleðinnar dyr. Ég vil ekki segja mikið meira en það.

Mér þykir vænt um Vestfirði enda hef ég búið þar. Þar telja menn að vegna laxeldisáforma geti íbúum á svæðinu fjölga um allt að 20 prósent. Menn sjá einhverja slíka framtíð fyrir sér — að laxeldið sé stór björgunarhringur fyrir byggðirnar þar.  Þetta er þannig lagað góð atvinnugrein en menn verða samt að passa sig hvar þeir setja þetta niður og hafa virkt eftirlit. Það þarf að gæta varúðar því þetta er ekki eins einfalt og menn halda.  Ég styð þetta en með þessum varnaðarorðum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .