Keflavíkurflugvöllur hefur alltaf verið mikilvægur vinnustaður fyrir Reykjanes í heild. Starfsemin hefur vaxið hratt á síðastliðnum árum og tekið miklum breytingum og hefur ferðafólki sem fer um flugvöllinn fjölgað mikið á undraskömmum tíma. Fyrir um áratug fóru um tvær milljónir farþega þar í gegn á einu ári en árið 2018 var fjöldinn um 9,8 milljónir og hefur því fimmfaldast á nokkrum árum.

Útlit er fyrir að farþegum fækki örlítið í ár, en samkvæmt farþegaspá Isavia verða þeir um 8,9 milljónir árið 2019. Gangi það eftir yrði það samt sem áður næstmesti fjöldi ferðafólks sem farið hefur um Keflavíkurflugvöll á einu ári. Það eru þó fleiri en fóru um völlinn árið 2017, sem þá var metár.

Þessi aukni fjöldi ferðamanna hefur þýtt aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli sem kallað hefur á fleira starfsfólk. Það er mikill viðsnúningur frá því að herstöð Bandaríkjamanna var lokað, en þá fækkaði störfum mikið á Reykjanesi. Árið 2010, þegar Isavia var stofnað, voru 293 starfandi hjá félaginu á Keflavíkurflugvelli í lok árs og því til viðbótar 121 starfsmaður hjá Fríhöfninni, dótturfélagi Isavia . Í fyrra var fjöldi starfsmanna Isavia á vellinum 804 og 233 störfuðu hjá Fríhöfninni, samanlagt 1.037 manns. Þessu til viðbótar er sumarstarfsfólk Isavia á flugvellinum sem starfar þar yfir annasömustu mánuðina. Þá eru ótaldir starfsmenn verktaka og þjónustuaðila á flugvellinum. Þeir eru jafnvel enn fleiri en starfsmenn Isavia .

Stærsti vinnustaður á Reykjanesi

Keflavíkurflugvöllur er stærsti vinnustaðurinn á Reykjanesi og segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia , mikilvægt að rækta gott samband við fólkið í nágrannasveitarfélögunum og þá sem halda um stjórnartaumana innan ráðhúsa þessara bæja.

„Vaxandi umfang flugvallarins hefur mikil áhrif á vöxt sveitarfélaga í kringum þennan stóra vinnustað,“ segir Björn Óli. „Til að tryggja gott samstarf höfum við haldið íbúafundi með reglubundnu millibili til að fara yfir stöðuna hvað varðar ýmsa hluti eins og til dæmis framkvæmdir og aðgerðir til að vinna gegn hljóðmengun frá rekstri okkar svo eitthvað sé nefnt. Þá höfum við kallað eftir samtali við íbúana til að ræða hvað brennur helst á þeim og hvað má betur fara hjá okkur að þeirra mati.“

Aukin starfsemi á Keflavíkurflugvelli hefur án efa haft áhrif á fólksfjölgun á svæðinu, sér í lagi í Reykjanesbæ, en frá árinu 2010 hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um rúmlega 26% samanborið við 12% á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu þar sem fjölgunin var næstmest . Björn segir þessa fjölgun í beinu samhengi við þann vöxt sem hafi orðið á Keflavíkurflugvelli.

Unnið að framtíðarsýn fyrir svæðið

„Þessi hraði vöxtur hefur auðvitað haft lýðfræðileg áhrif og stefnum við því að vinna með forystufólki í nágrannasveitarfélögunum að framtíðarsýn fyrir svæðið með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi,“ segir Björn Óli. „Íbúasamsetningin hefur tekið breytingum, sem sést á því að erlendir ríkisborgarar á svæðinu voru 9% íbúanna en eru um 21% í dag. Annað dæmi um áhrif aukinna umsvif á Keflavíkurflugvelli er að nær allt íbúðarhúsnæði á Ásbrú er komið í notkun sem er eitthvað sem fáir áttu von á að myndi gerast svona fljótlega eftir árið 2010.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um stöðu mála í flugrekstri á Íslandi. Þá gerir farþegaspá Isavia ráð fyrir fækkun í heildarfjölda farþega um Keflavíkurflugvöll þetta árið og hefur vaknað sú spurning hvort þörf sé á að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

„Mikilvægt er að hafa í huga að flugstöðin er nú þegar orðin of lítil fyrir þann fjölda farþega sem hefur farið um hana árlega á síðustu árum,“ segir Björn Óli. „Það vantar meira rými til að þjónusta farþegana eins vel og við viljum gera og tryggja að þeim líði vel. Ef horft er til alþjóðlegra viðmiða þá þarf að bæta við um 10 þúsund fermetrum við flugstöðina til að hægt sé að þjónusta betur þann fjölda farþega sem fer þar um á háannatíma.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Reykjanes, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð og hægt er gerast áskrifandi hér .