Fregnir af sölu erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfum hafa verið meira áberandi en kaup þeirra undanfarin tvö ár eða svo. Vísbendingar eru um að það kunni að vera að breytast. Í síðust viku var Ísland formlega tekið inn í vísitölu MSCI yfir vaxtarmarkaði sem opnar á fjárfestingar fjölda erlendra fjárfestingarsjóða á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Erlendir fjárfestar hafa enda aukið við hlut sinn í nokkrum íslenskum skráðum félögum síðustu daga samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að Ísland hafi staðist prófið í heimsfaraldrinum í augum erlendra fjárfesta.

„Ég tel að það hafi aukið trú erlendra fjárfesta á Íslandi hvernig hagkerfinu, krónunni og hlutabréfamarkaðnum hefur reitt af. Sér í lagi að við höfum komist í gegnum ástandið án aðgerða sem heftu fjármagnsflæði á milli landa, því að menn eru ekki alveg búnir að gleyma gjaldeyrishöftunum. Þá hjálpar aukin þátttaka Íslendinga einnig til við að auka tiltrú erlendra fjárfesta á markaðnum.“

Greiningar á borð við þá sem HSBC, einn stærsti banki heims, birti í síðustu viku þar sem bankinn mælti með fjárfestingum í íslenskum hlutabréfum skipti einnig máli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .