Internetfyrirtæki, stjórnvöld og handhafar réttinda myndefnis og tónverka þar í Frakklandi hafa tekið höndum saman og skrifað undir samkomulag sem hefur það að markmiði að draga úr ólöglegu niðurhali. Þessu samkomulagi verður stýrt af nefnd sem framkvæmdastjóri FNAC fer fyrir, en FNAC er einn af stærri tónlistar- og kvikmyndasmásölum Frakklands. Samkvæmt samkomulaginu munu internetfyrirtæki, í umboði nefndarinnar, veita viðskiptavinum sínum viðvaranir verði þeir uppvísir að ólöglegu niðurhali. Ef notendurnir virða þessar viðvaranir að vettugi getur internetfyrirtækið lokað fyrir netaðgang viðkomandi tímabundið eða jafnvel endanlega.

Samkomulagið setur einnig skyldur á tónlistar- og kvikmyndafyrirtæki, sem hafa samkvæmt því heitið að gera efni sitt aðgengilegt á netinu fyrr en áður og fjarlægja tæknilegar hindranir af efni sínu. Til dæmis þær er gera tónlist ólæsilega í ákveðnum tegundum margmiðlunarspilara.

Nánar er fjallað um málið í Tölvur & Tækni sem fylgir Viðskiptablaðinu í dag.