Framundan eru margir stórir áfangar í efnahagslífinu. Ef allt gengur eftir áætlun lýkur samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, lögð verður fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta, Icesave verður til lykta leitt, ESB umsókn kemst á skrið og fyrirtæki og heimili fara á beinu brautina. Þá eru kjarasamningar framundan.

Greining Íslandsbanka fjallar um helstu áfanga og atriði sem framundan eru á árinu í Morgunkorni sinu í dag. Hér að neðan má lesa umfjöllun greiningarinnar í heild:

Margir mikilvægir áfangar framundan á nýju ári

Mörgum fannst nýliðið ár einkennast af mikilli stöðnun og hægagangi enda óhætt að segja að það hafi tekið lengri tíma að rísa upp úr öskunni en búist var við. Vonast flestir til að breyting verði á nýju ári og að uppbygging  efnahagslífsins gangi nú hraðar fyrir sig. Framundan eru margir stórir áfangar sem vonandi verður hægt að sigla í höfn á árinu. Nefnum við hér nokkra.

Samstarfi við AGS lýkur

Gangi efnahagsáætlun AGS og íslenskra stjórnvalda eftir verður endapunkturinn á samstarfinu settur á þessu ári. Samstarfið við AGS hófst eins og kunnugt er skömmu eftir bankahrunið, eða í nóvember 2008. Þá var tveggja ára efnahagsáætlun hleypt af stokkunum sem átti samkvæmt upprunalegum áætlunum að ljúka í árslok 2010. Það gekk hinsvegar ekki eftir og nú er ljóst að samstarfinu mun ekki ljúka fyrr en næsta haust þegar sjöunda og jafnframt síðasta endurskoðunin á að fara fram.  Reyndar stefnir AGS að því að ljúka fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar nú í janúar. Markmið efnahagsáætlunarinnar var þríþætt: Í fyrsta lagi að tryggja gengisstöðugleika, í öðru lagi að endurreisa bankakerfið og tryggja trausta endurtengingu þess við alþjóðlega fjármálakerfið, og í þriðja og síðasta lagi að tryggja ásættanlega stöðu opinberra fjármála. Til þess að hægt  verði að setja endapunkt á samstarfið þarf viðunandi árangur að hafa náðst í öllum þessum þremur þáttum. Í ljósi þess árangurs sem náðst hefur varðandi gengisstöðugleika og í ríkisfjármálum þykir ljóst að athyglin mun beinast að endurreisn bankakerfisins á síðari helming samstarfsins. Ljúki áætluninni á tilsettum tíma er ljóst að Ísland verður meðal fyrstu ríkja sem ljúka samstarfi við AGS eftir þessa fjármálakreppu. Það væru gríðarlega jákvæð tíðindi bæði fyrir Ísland og AGS, en AGS er eins og kunnugt er enn að taka fórnarlömb fjármálakreppunnar upp á sína arma, núna síðast Írland.

Áætlun um afnám gjaldeyrishafta sett fram

Þrátt fyrir að markmið AGS og stjórnvalda um gengisstöðugleika sé í höfn er ljóst að enn á eftir að útkljá hvað verður fyrirkomulag peningamála eftir að samstarfi við AGS lýkur. Allt frá því að gjaldeyrishöftin voru sett á hefur ríkt óvissa um framtíð haftanna, hvort og hvenær þau verða afnumin og hvert verður fyrirkomulag peningamála að tíma þeirra loknum. Þessi óvissa hefur haft neikvæð áhrif  á efnahagslífið. Á þessu ári mun þessari  óvissu vonandi verða aflétt, í það minnsta varðandi gjaldeyrishöftin. Már Guðmundsson tilkynnti við vaxtaákvörðun bankans í byrjun nóvember síðastliðins að unnið væri að áætlun um afnám gjaldeyrishafta og mun hún líta dagsins ljós í síðasta lagi í mars á þessu ári. Eins og kunnugt er renna heimildir í lögum um gjaldeyrishöftin út í ágúst á þessu ári, en samkvæmt Seðlabankastjóra  verður sú heimild líklega framlengd og höftin munu því væntanlega fylgja okkur lengur en samstarfið við AGS.

Icesave til lykta leitt

Alþingi mun taka fyrir nýjan Icesave samning nú í janúar. Engum blöðum er um það fletta að samningurinn sem Lee Buchheit og samninganefnd hans kom með heim og kynntu fyrir þjóðinni í desember er mun betri en fyrri samningar. Þannig verða vextir samkvæmt hinu nýja samkomulagi u.þ.b. 3,2%, en eins og kunnugt er hafnaði þjóðin  "gamla Icesave" samkomulaginu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hljóðaði upp á  5,5% vexti. Í heildina litið er gert ráð fyrir að sá kostnaður sem mun falla á íslenska ríkið vegna Icesave sé mun minni en  áður var gert ráð fyrir, eða á bilinu  40 - 60 ma. kr. Samningurinn bíður nú samþykkis Alþingis og síðar forseta Íslands. Hvernig sem málið fer verður að teljast líklegra en ekki að það verði leitt til lykta á fyrri hluta þessa árs. Yrði það raunin er ljóst að um jákvæðar fréttir er að ræða enda tiltekinni óvissu í efnahagsmálum og hindrun í erlendum viðskiptum þá aflétt. Icesave málið hefur hangið yfir þjóðinni eins og Damóklesarsverð allt frá hruni með víðtækum afleiðingum á hinum margvíslegustu sviðum.  Þrátt fyrir að komið hafi á daginn að þær dómsdagsspár sem settar voru fram um hvað myndi gerast ef Icesave deilan yrði ekki leyst reyndust ekki á rökum reistar er lausn á þessu máli engu að síður mikilvæg. Þannig mun lausn Icesave deilunnar vera jákvæð fyrir lánshæfismat ríkissjóðs, sem aftur er mikilvægt fyrir lánshæfi allra íslenskra fyrirtækja og möguleika þeirra til að afla sér lánsfjár á viðunandi kjörum í útlöndum. ESB umsókn kemst á skrið

Allt útlit er fyrir að formlegar samningaviðræður um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu muni hefjast á árinu. Þann 17. júní síðastliðinn samþykkti framkvæmdastjórn ESB umsóknina og í kjölfarið hófst svokölluð rýnivinna sem felst í því að bera saman löggjöf Íslands og ESB í því skyni að bera kennsl á hvar helsti munurinn liggur og helstu ásteytingarsteinar í samningaviðræðum verða. Rýnivinnan er formlegt  ferli en að því loknu geta samningaviðræður formlega hafist. Löggjöf Evrópusambandsins skiptist í 35 kafla og er samið um hvern þeirra fyrir sig. Ísland hefur þegar tekið upp stóran hluta löggjafar 21 af 35 köflum lagaverks ESB í gegnum EES-samninginn frá 1994. Auk þess hefur lagaumhverfi Íslands verið aðlagað þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á fleiri sviðum, s.s. í gegnum þátttöku Íslands í Schengen. Vegna þess hversu mikið af löggjöfinni hefur nú þegar verið tekið upp er gert ráð fyrir að formlegar aðildarviðræður klárist á innan við tveimur árum. Aðildarviðræðurnar munu því líklega ekki klárast fyrr en á næsta ári að því gefnu að þær komist að stað á árinu. Engu að síður er mikilvægt að þær hefjist, en ESB umsóknin hefur valdið miklum óróa í samfélaginu og því mikilvægt að leiða málið til lykta og fá niðurstöðu. Fyrirtæki og heimili á beinu brautina

Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir þann seinagang sem hefur einkennt fjárhagslega endurskipulagningu heimila og fyrirtækja. Útlit er hinsvegar fyrir að margir stórir áfangar náist í þeirri vegferð á árinu. Stjórnvöld, í samstarfi við bankana, lífeyrissjóðina og atvinnulífið, tilkynntu í lok síðasta árs um aðgerðir sem miða í þá átt að þessari endurskipulagningu verði lokið um mitt þetta ár. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti verður að hennar sögn lokahnykkurinn í aðgerðum til handa skuldsettum heimilum og fyrirtækjum. Ef sátt næst um aðgerðirnar binda þær endahnút á frekari bið eftir aðgerðum af þessu tagi, sem er mikilvæg forsenda þess að endurreisn geti hafist. Þá minnka aðgerðirnar óvissu varðandi stöðu fjármálafyrirtækjanna, sem er m.a. ein af forsendum þess að afnám gjaldeyrishafta geti hafist samkvæmt orðum Seðlabankastjóra.

Kjarasamningar framundan

Framundan eru kjarasamningar sem líklega munu hefjast á allra næstu vikum, en flestir kjarasamningar á almenna og opinbera vinnumarkaðinum  hafa verið að losna öðru hvoru megin við áramótin. Umfangsmiklar kjaraviðræður eru því framundan. Ljóst er að enn er afar erfið staða á vinnumarkaði og atvinnuleysi mikið. Fulltrúar bæði launþega og atvinnurekenda virðast  vera sammála um að leggja þurfi áherslu á atvinnuuppbyggingu, fjárfestingu og að búa til ný störf en að svigrúm til launahækkana sé ekki mikið að svo stöddu. Kjarasamningarnir munu því mótast af efnahagsástandinu þar sem atvinnuleysi er í sögulegum hæðum. Kaupmáttur launa hefur einnig skerst mikið frá hruni og verður markmiðið að snúa þeirri þróun við. Í þessu sambandi er staða atvinnugreina afar ólík, en sökum hagstæðs raungengis eru útflutningsgreinarnar betur settar en þær sem undanfarið hafa þurft að takast á við mikinn samdrátt í innlendri eftirspurn og orðið illa úti í fjármálakreppunni. Allt bendir þó til þess að launahækkanir verði hóflegar