Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um styrkingu gjaldeyrishaftanna á Alþingi rétt í þessu og sagði hann mikilvægt að breytingarnar gengju fyrir sig hratt og fumlaust.

Hann tók einn til máls og að því búnu fór frumvarpið til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd Alþingis. Til stendur að afgreiða það sem lög frá Alþingi í kvöld.

Steingrímur sagði aðgerðirnar brýnar og óumflýjanlegar. Hliðstætt því sem menn töldu óumflýjanlegt á liðnu hausti og vísaði hann þar til gjaldeyrislaganna sem þá voru sett.

Frumvarpið kynnt hagsmunaaðilum í hádeginu

Steingrímur sagði að hann hefði kynnt málið í hádeginu fyrir forystumönnum útvegsmanna og fiskvinnslunnar og Samtaka atvinnulífsins. „Eru menn þar sammála um að óhjákvæmilegt sé að bregðast við aðstæðunum þó að þeir aðilar séu ekki endilega eftir atvikum sáttir við þær takmarkanir sem þarna voru á settar í haust."

Hann sagði að lokað hefði verið fyrir móttöku tollskýrslna á rafrænu formi fyrir klukkan fjögur í dag og að vandséð væri að gjaldeyrismarkaðir yrðu opnaðir án vandræða í fyrramálið nema breytingarnar væru um garð gengnar.

Frumvarpið í heild má finna hér .