Líkur eru á að gjaldeyrishöft verði hér um áraraðir. Því er mikilvægt að huga að hvernig hægt er að nýta þau með hraðri lækkun vaxta. Í skjóli þeirra gæti ríkið lækkað vaxtakostnað enn frekar með endurfjármögnun lána. Gjaldeyrishöftin hafa hinsvegar ekki verið nýtt hingað til.

Þetta sagði Gísli Hauksson, framkvæmarstjóri GAMMA, á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í dag.

Yfirskrift fundarins var „Peningamálastefna til framtíðar - leiðin frá höftum til hagsældar“.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði að það væri ekki á stefnuskrá stjórnvalda að hér yrðu gjaldeyrishöft til frambúðar. Már og Illugi Gunnarsson þingmaður fluttu erindi á fundinum en auk þeirra tóku Gísli Hauksson, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Ragnar Árnason hagfræðiprófessor þátt í pallborðsumræðum.

Í erindi sínu fjallaði Már um framtíð peningastefnunnar og valkostina sem í boði eru. Hann nefndi þrjár mögulegar leiðir sem hægt er að fara: einhliða fastgengi, einhliða upptöku annarra myntar eða leið sem seðlabankastjóri kallar „verðbólgumarkmið plús“.

Sú síðastnefnda feli meðal annars í sér hömlur á alþjóðlega bankastarfsemi og gjaldeyrisinngrip sem leggjast gegn gengissveiflum.

Illugi sagði í erindi sínu að á árunum fyrir hrun hafi skattalækkanir og aukning ríkisútgjalda síður en svo hjálpað seðlabankanum við að halda verðbólgu í skefjum. Hans tók undir orð Más sem sagði að vandamál peningstefnunnar verði ekki leyst í eitt skipti fyrir öll.

Steingrímur kvaðst sammála Illuga um að setja þurfi reglur um lántökur sveitarfélaga, til dæmis með því að banna sveitarfélögum að taka lán í erlendri mynt. Hann sagði að stjórnvöld vinni nú að því að koma lánum sveitarfélaga heim.

Ragnar Árnason sagði að peningastefna seðlabankans á árunum fyrir fall bankanna hafi skuldsett landið svo mikið að hrun hafi verið óumflýjanlegt. Hækkun stýrivaxta leiddi til mikils innstreymis fjármagns og gengisstyrkingar krónunnar. Því hafi viðskiptajöfnuður farið á hliðina og verið neikvæður um 80% af landsframleiðslu á árunum 2004-2008.

Ragnar sagði ennfremur að peningastefna framtíðarinnar verði að byggja á frjálsu flæði fjármagns. Þannig sé kerfið í heiminum og íslensk fyrirtæki geti ekki staðist samkeppni erlendis frá ef hér eru fjármagnshöft.